Guðmundur Guðmundsson í Bjarnastaðahlíð

(Endurbeint frá Guðmundur bíldur)

Guðmundur Guðmundsson í Bjarnastaðahlíð (um 1618 – um 1700) var íslenskur útskurðarmeistari og smiður á 17. öld, oft kallaður Guðmundur snikkari eða Guðmundur bíldur (bíldskeri). Hann er helsti fulltrúi barokkstílsins meðal íslenskra listamanna og áhrifamikill maður í íslenskum tréskurði á sínum tíma. [1]

Skírnarfonturinn í Hóladómkirkju, þekktasta verk Guðmundar.

Guðmundur var sonur Guðmundar Guðmundssonar bónda og lögréttumanns í Bæ í Bæjarsveit og konu hans Sigríðar Jónsdóttur. Faðir hans drukknaði undan Seltjarnarnesi árið 1618 frá konu sinni og tíu ungum börnum. Þrátt fyrir það komust flestir bræður Guðmundar til mennta og sjálfur fór hann til Kaupmannahafnar og lærði þar bíldskurð. Þar komst hann í kynni við barokkstílinn og flutti hann með sér heim, einkum það afbrigði hans sem kallað er brjóskbarokkstíll.

Guðmundur var talinn mesti hagleiksmaður sins tíma. Hann vann við smíðar og myndskurð víða um land. Mesta verk hans var Skálholtskirkja (Brynjólfskirkja) en hann var yfirsmiður hennar að hluta. Kirkjan var reist um 1650 en var rifin 200 árum síðar.

Allmörg verk Guðmundar hafa varðveist. Þekktastur er skírnarfonturinn í Hóladómkirkju, sem ber ártalið 1674 og er merktur Guðmundi. Skírnarfontinn, sem er skorinn úr grænlensku klébergi, gerði hann fyrir Gísla Þorláksson biskup og Ragnheiði Jónsdóttur þriðju konu hans, en hann var lengi í þjónustu þeirra. Meðal annars er hann talinn hann hafa skorið út altari og vindskeiðar í kirkjunni í Gröf á Höfðaströnd, þar sem Ragnheiður bjó lengi. Önnur þekkt verk hans eru meðal annars útskorin og máluð altaristafla úr kirkjunni á Reykjum í Tungusveit, eikarkista með ártalinu 1680 og fangamarki Ragnheiðar biskupsfrúar.

Kona Guðmundar var Halldóra Guðmundsdóttir (f. 1634). Þau bjuggu í Bjarnastaðahlíð í Vesturdal í Skagafirði og er Guðmundur jafnan kenndur við þann bæ.

Tilvísanir

breyta
  1. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1969

Heimild

breyta
  • Kristján Eldjárn (1959). Stakir steinar. Bókaútgáfan Norðri.
  • „Guðmundur bíldur“; grein í Blöndu 1932