Kléberg er nytjasteinn úr talki, tálgusteinstegund sem auðvelt er að vinna og þolir vel eld. Steininn er stundum kallaður talk, steatít, sápusteinn, kléberg eða tálgusteinn. Kléberg finnst viða um heim og er algengt hráefni í ýmiskonar gripi og ílát. Kléberg finnst ekki í íslenskri náttúru en klébergsgripir eru algengir meðal íslenskra forngripa, einkum frá víkingaöld, og hljóta þeir að hafa verið innfluttir.

Notkun klébergs

breyta

Kléberg hefur verið notað í sökkur, kljásteina, potta, lampa, deiglur, snældusnúða og jafnvel sem byggingarefni, t.d. er dómkirkjan í Þrándheimi í Noregi að stórum hluta úr klébergi.

Kléberg á Íslandi

breyta

Mikið af klébergsgripum hefur fundist á Íslandi, einkum í mannvistarlögum frá víkingaöld. Flestir virðast upphaflega hafa verið gerðir sem grýtur (pottar), skálar eða lampar en þegar þeir brotnuðu voru oft gerðir minni hlutir úr þeim, t.d. snældusnúðar og taflmenn. Gripir úr klébergi hafa fundist um allt land en misjafnt er milli staða hversu hátt hlutfall er af klébergi í viðkomandi gripasafni. Amanda Forster fornleifafræðingur hefur rannsakað íslensku klébergshlutina og heldur því fram að ekki hafi verið mikil verslun með kléberg á víkingaöld heldur hafi landnámsmenn komið með klébergshluti með sér, sem síðan hafi smátt og smátt brotnað og gengið úr sér þangað til lítið sem ekkert var eftir af nýtilegu klébergi í landinu. Þekktar klébergsnámur eru á Grænlandi, Hjaltlandi og í Noregi en niðurstaða Forsters var sú að íslenska klébergið væri að stærstum hluta ættað frá Noregi.

Eftir víkingaöld verður kléberg mjög sjaldgæft á Íslandi og finnst þá aðeins á stórbýlum eins og Viðey.

Tenglar

breyta

Heimildir

breyta

Kristján Eldjárn 1951, ‘Kléberg á Íslandi.’ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1949-50, bls. 41-62.

Forster, Amanda 2004, ‘The Soapstone Trade in the North Atlantic: Preliminary research of Viking and Norse period soapstone imports in Iceland.’ Current issues in Nordic Archaeology. Proceedings of the 21st conference of Nordic Archaeologists 6-9 September 2001 Akureyri Iceland, ed. Garðar Guðmundsson, Reykjavík, 17-22.