Guðmundur Sigurjónsson Hofdal

íslenskur glímukappi og íshokkí þjálfari

Guðmundur Sigurjónsson Hofdal (15. apríl 1883 - 14. janúar 1967) var íslenskur glímukappi og íshokkí þjálfari. Hann fór í hópi íslendingana á Ólympíuleikana 1908 til að sýna íslenska glímu sem var þar sýningar íþrótt. Hann var þjálfari Winnipeg Falcons, sem sigraði í íshokkí á Ólympíuleikunum árið 1920 undir hans stjórn. Guðmundur er eini íslendingurinn sem hefur verið dæmdur fyrir kynmök við aðra karlmenn.[1]

Guðmundur árið 1920

Æviágrip breyta

Guðmundur Sigurjónsson fæddist árið 1883 á Litluströnd í Mývatnssveit. Bróðir Guðmundar var Benedikt Guðmundsson, sem var betur þekktur sem Fjalla-Bensi og var fyrirmynd samnefndrar persónu í bókinni Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson.[1] Fjölskylda Guðmundar var efnalítið og ólst hann upp við sára fátækt. Árið 1905 fór Guðmundur til Reykjavíkur og settist þar að. Hann fór að stunda glímu með Glímufélaginu Ármanni árið 1906, en hann hann hafði alla tíð glímt heima í Mývatnssveit. Hann taldi bera af í glímunni. Árið 1907 var Guðmundur valinn í hóp til að glíma í Konungsglímunni á Þingvöllum til heiðurs Friðriki VIII konungs.[1] Árið 1908 hélt hann í hópi sjö íslenskra glímukappa til London á Ólympíuleikana til að sýna íslenska glímu undir stjórn Jóhannesar Jósefssonar.[2]

Árið 1913 fluttist Guðmundur til Englands til að læra Íþróttaþjálfun og nudd. Ári síðar flutti hann svo til Winnipeg í Kanada.[1]

16. maí 1916 gekk Guðmundur í kanadíska herinn. Hann var liðþjálfi í björgunarliði 27. herdeildarinnar. Hann var á vígvelli í fyrri heimstyrjuöldinni þar til stríðinu lauk, þá fylgdi hann breskri hersveit til Þýskalands og var þar í 4 mánuði. Guðmundur snéri aftur heim til Kanada 28. maí 1919 og lauk þar með herþjónustu sinni.[3]

Winnipeg Falcons breyta

Á árunum í Kanada gekk Guðmundur til liðs við íshokkíliðið Winnipeg Falcons, sem var stofnað og skipað af vestur-Íslendingum. Stór hluti liðsins barðist í fyrri heimsstyrjöldinni, en eftir hana var liðið aftur sett saman, með Guðmund sem einn af þjálfurum liðsins.[1] Árið 1920 unnu Winnipeg Falcons Allan bikarinn og tryggði það liðinu sæti á Ólympíuleikana í Antwerp sama ár fyrir hönd Kanada.[4] Liðið vann síðan gull á Ólympíuleikunum undir forystu Guðmundar eftir að hafa sigrað alla leiki sína.[4] Guðmundur hélt ekki til kanada eftir leikana heldur fór til Svíþjóðar þar sem hann þjálfaði Ólympíulið Svía í íshokkí um stutt skeið, en hann flutti aftur heim til Íslands í lok árs 1920.[1]

Heimkoma breyta

Guðmundur snéri heim í lok árs 1920 og gerðist glímukennari, frjálsíþróttaþjálfari og íþróttanuddari ásamt því að vera forstöðumaður á Litla-Kleppi sem var einskonar útibú Kleppsspítala.[1] Guðmundur gekk svo í stjórn Ungmennafélags Reykjavíkur og sat þar í 4 ár.[1]

Ákæra og fangelsisdómur breyta

Í janúar 1924 barst lögreglu kæra frá Steindóri Sigurðssyni í garð Guðmundar. í henni stóð meðal annars:

"Það orðspor hefur legið á Guðmundi og verið að umtali hér í bænum að hann hefði sterka tilhneigingu til að hafa samræði við sitt eigið kyn (homosexualisme). Sjálfur hefi ég í umgengni minni við Guðmund að mestu sloppið við þetta utan einu sinni á Akureyri í sept. sl. þegar ég er staddur á herbergi hans, reyndi hann þá að sýna mér ástaratlot og gerði ítrekaðar tilraunir til þess að fá mig til að sýna sér blíðuatlot og að fá mig til að hneppa frá mér buxnahnöppunum o.s.frv. en þess utan hefi ég af umgengni við Guðmund og kunningja hans komist að því að Guðmundur er ofurseldur þessum mjög svo sorglega lesti."[5]

11 dögum eftir að Steindór sendi inn kæruna sendi hann inn annað bréf þar sem hann dró ákæruna til baka. Steindór sagði ástæðu kærunnar hafa verið sú að nokkrir andstæðingar Guðmundar, sem voru sprúttsalar, hefðu espað hann upp í að skrifa hana, en Guðmundur hafði uppljóstrað starfsemi þeirra til lögreglu. Ákæran hefði verið gerð í hefndarhug og sagðist Steindór í raun aldrei hafa verið var við að Guðmundur bæri þesslags tilfinningar til annara karla.[1] Í kjölfar seinna bréfsins sendi Bæjarfógetinn bréf til Dómsmálaráðuneytis og bað um að rannsókn málsins yrði felld niður, en dómsmálaráðuneytið skipaði að halda rannsókninni áfram.[1]

16 einstaklingar voru yfirheyrðir í málinu. Réttarhöld málsins hófust 28. febrúar 1924 og stóðu til 12. mars. Strax á fyrsta degi réttarhalda var Guðmundur settur í gæsluvarðhald og í einangrun.[1] Í fyrstu neitaði Guðmundur öllu því sem var borið upp á hann, en fjórir karlmenn báru vitni um að Guðmundur hafi stundað með þeim kynlíf, eða reynt það. Eftir viku í einangrunarvist játaði Guðmundur að hafs stundað kynlíf með 2-3 af þeim karlmönnum sem báru vitni. Hann sagðist einnig hafa stundað kynlíf með fleiri karlmönnum seinustu 15-18 árin.[1] Guðmundi var sleppt eftir það.

31. mars var dómurinn kveðinn upp, en þar kom fram að hann hafi stundað kynlíf með öðrum karlmönnum, en engum undir 16 ára aldri og hafði kynlífið verið stundað með samþykki hinna aðilanna. þrátt fyrir það var ekki talið að neinn þeirra sem hefði stundað kynlíf með Guðmundi hafi gert nokkuð sakhæft. Guðmundur hlaut átta mánaða fangelsisdóm fyrir brot á 178. grein hegningarlaga. Guðmundur hóf þó ekki afplánun fyrr en 9 mánuðum síðar, þann 25. janúar 1925 í Hegningarhúsinu, en var náðaður eftir þriggja mánaða fangelsisvist.[1]

Náðun breyta

Skömmu eftir að dómurinn féll sendi Guðmundur Thoroddsen læknir bréf til dómsmálaráðherra Guðmundi Sigurjónssyni til varnar. Guðmundi Thoroddsen ofbauð að slíkir dómar væru felldir á Íslandi og væri samskonar dómskvaðningar á meginlandi Evrópu liðin tíð. Hann sagði lögin vera úrelt og kallaði eftir því að Guðmundur Sigurjónsson yrði náðaður.[1] Í bréfinu hafði Guðmundur Thoroddsen þetta að segja um kynvillu og mál Guðmundar Sigurjónssonar:

„Ég hef, sem kennari í réttarlæknisfræði við Háskólann, athugað hvernig réttarmeðvitund manna um kynvillu hefur breyst á seinni árum í útlöndum, þar sem kynvilla er miklu útbreiddari en hér hjá oss og þori nú að fullyrða, að í öllum nágrannalöndum okkar er hætt að hegna fyrir kynvillu ef unglingar eru ekki tældir eða menn teknir með valdi (nauðgað) eða vakið er opinbert hneyksli. Og það er jafnvel hætt að hegna fyrir kynvillu í löndum sem hafa enn jafn úrelt hegningarlög og vér, og því síður mundi vera hegnt fyrir athæfi sem aðeins mætti kalla gagnkvæma masturbatio milli fullorðinna karlmanna.“[6]

Skoðun Guðmundar Thoroddsen hlaut stuðning Guðmundar Björnssonar landlæknis, sem skrifaði einnig til dómsmálaráðherra að lögin væru úrelt og að Guðmundur Sigurjónsson væri ekki sekur um glæp.[1] Svo varð að að dómsmálaráðherra náðaði Guðmund Sigurjónsson og var honum sleppt úr haldi eftir að hafa afplánað um hálfan dóm.

Lífið eftir fangelsisvistina breyta

Lítið fór fyrir Guðmundi fyrstu árin eftir dóminn, en hann hraktist úr því félagsstarfi sem hann hafði stundað eftir að hann kom heim frá Kanada jafnt sem að hann var rekinn af Litla-Kleppi.[1] Það var ekki fyrr en 1929 sem næst var til hans getið, þá hafði hann snúið aftur til íþróttahreyfingarinnar og stofnað til Glímufélags Reykjavíkur, en þar var hann bæði þjálfari og formaður. Ári síðar var félagið lagt af.[1] Árið 1942 hóf hann að kenna glímu hjá Íþróttafélagi Reykjavíkur. Þá hafði hann skipt um nafn og hét Guðmundur S. Hofdal.[1]

Guðmundur eignaðist landið Sandvatn í Mývatnssveit og árið 1946 lét hann ryðja flugbraut til að bæta samgöngur í Mývatnssveit. Guðmundur hafði einnig hug á að reista gistihús í Mývatnssveit en ekkert varð úr því. Í stað þess gaf hann kvenfélaginu í Mývatnssveit peninginn sem ætlaður var í það verk.[1]

Árið 1948 hélt Guðmundur í þriðja og seinasta skiptið á Ólympíuleikana. Að þessu sinni sem nuddari fyrir íslenska íþróttafólkið.[1]

Guðmundur lést 14. janúar 1967 í Reykjavík og var jarðsunginn í Reykjarhlíðarkirkju í Mývatnssveit.[1]

Heimildir breyta

  1. 1,00 1,01 1,02 1,03 1,04 1,05 1,06 1,07 1,08 1,09 1,10 1,11 1,12 1,13 1,14 1,15 1,16 1,17 1,18 1,19 1,20 Þorvaldur Kristinsson (2017). Glæpurinn gegn náttúrulegu eðli. Kafli í "Svo veistu að þú varst ekki hér". Sögufélag.
  2. „Óðinn - 4. tölublað (01.07.1908) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 20. apríl 2024.
  3. Rögnvaldur Pétursson og Guttormur Guttormsson (1923). Minningarrit íslenzkra hermanna 1914-1918. Félagið Jón Sigurðsson:Winnipeg. bls. 197.
  4. 4,0 4,1 „1919/20 WINNIPEG FALCONS | Manitoba Hockey Hall of Fame“. mbhockeyhalloffame.ca. Sótt 20. apríl 2024.
  5. Þjóðskjalasafn Íslands. Kærubréf Steindórs Sigurðssonar. 31. janúar 1924.
  6. Þjóðskjalasafn Íslands. Bréf Guðmundar Thoroddsen til dómsmálaráðherra. 9. maí 1924.