Ungmennafélag Reykjavíkur
Ungmennafélag Reykjavíkur var ungmennafélag í Reykjavík sem stofnað var 3. október árið 1906. Það starfaði með miklum krafti fyrstu árin og átti stóran þátt í upphafssögu nútímaíþróttastarfs í höfuðstaðnum. Með tímanum dró mjög úr krafti félagsins og það lognaðist út af um miðjan þriðja áratuginn. Það var endurreist árið 1942 en var endanlega slitið árið 1962.
Saga
breytaUngmennafélag Reykjavíkur var eitt fyrsta ungmennafélag landsins, stofnað sama ár og Ungmennafélag Akureyrar sem taldist fyrsta félagið innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Það var stofnsett á tímum mikillar gerjunar í félagsmálum og íþróttastarfi í Reykjavík og áttu félagsmenn þess stóran þátt í uppbyggingu ýmissa íþróttagreina. Þannig kom Ungmennafélag Reykjavíkur myndarlega að byggingu íþróttavallarins á Melunum sem vígður var árið 1911 og stóð árið 1909 fyrir smíði sundskála í Skerjafirði sem varð mjög til að ýta undir sundíþróttina.
Líkt og önnur ungmennafélög sinnti Ungmennafélag Reykjavíkur ekki íþróttastarfi eingöngu heldur var það félagsskapur með víðtæka starfsemi, s.s. fyrirlestrarhald og blaðaútgáfu um ýmis framfaramál þjóðarinnar. Félagsmenn voru virkir í baráttunni fyrir því að Íslendingar eignuðust þjóðfána. Málrækt var einnig í miklum metum og héldu félagsmenn úti sérstökum dálki í málgagni sínu Skinfaxa þar sem málvillur og ambögur félagsmanna voru birtar undir nafni þeirra.
Ungmennafélag Reykjavíkur var sigursælt á fyrsta landsmóti UMFÍ sem haldið var í tengslum við vígslu íþróttavallarins á Melunum árið 1911, þar á meðal Sigurjón Pétursson sem síðar var kenndur við Álafoss, sem bar höfuð og herðar yfir aðra íþróttamenn á mótinu. Á öðru landsmótinu, þremur árum síðar, sem einnig fór fram í Reykjavík var Guðmundur Kr. Guðmundsson mestur afreksmaður, en hann keppti einnig undir merkjum félagsins. Aðalíþróttaþjálfari félagsins um þær mundir var glímukappinn Guðmundur Sigurjónsson, en eftir að hann fluttist vestur um haf sama ár lognuðust íþróttaæfingar félagsins útaf. Ýmsir forystumenn Ungmennafélagsins á fyrri hluta starfstíma þess áttu eftir að verða áberandi í þjóðlífinu. Má þar nefna Jónas frá Hriflu, Tryggva Þórhallsson og Ásgeir Ásgeirsson.
Dyggð sjálfboðavinnunnar
breytaUngmennafélag Reykjavíkur var í fyrstu einungis opið körlum, en félagið vann náið með Ungmennafélaginu Iðunni sem skipað var konum. Saman hófust félögin handa við sitt stærsta viðfangsefni sumarið 1908, sem var lagning skíðabrautar í námunda við Öskjuhlíð og ræktun skógar umhverfis hana. Unnið var sleitulaust að verkinu í sex sumur þar sem félagsfólk stritaði í þúsundir klukkustunda. Vinnan var að nafninu til launuð en engar greiðslur voru inntar af hendi heldur var þeim jafnóðum breytt í hlutafé í skíðabrautinni. Var það í anda hugmyndafræði Ungmennafélagshreyfingarinnar sem hvatti um þær mundir mjög til þess að tekin yrði upp þegnskylduvinna á Íslandi, sem var að lokum fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1916.
Skíðabrautin nýttist illa vegna snjóléttra vetra og skógræktarstarfið fór að mestu út um þúfur. Vera kann að þau vonbrigði hafi orðið til þess að mestur vindur var úr félaginu af framkvæmdum loknum. Lagðist félagið í dvala árið 1918.
Árið 1922 var félagið endurvakið og sameinaðist þá Ungmennafélaginu Iðunni. Saman einsettu félögin sér að reisa stórhýsi við Laufásveg. Verkefnið reyndist félagsfólki ofviða og var því slitið vorið 1925.
Þjóðleg endurreisn
breytaUngmennafélag Reykjavíkur var endurstofnað árið 1942 af hópi fólks sem hafði það að yfirlýstu markmiði að efla þjóðerniskennd unga fólksins. Meðal stjórnarmanna í hinu endurreista félagi var skáldið Jón úr Vör. Félaginu var fremur ætlað að vera málfunda- og ferðafélag en íþróttafélag og lét það lítið til sín taka á íþróttasviðinu. Eitt helsta baráttumál félagsins á þessu seinna starfskeiði sínu var bygging Æskulýðshallar sem aldrei leit dagsins ljós þótt óbeint megi rekja byggingu Laugardalshallar til þeirra áforma.
Undir lok fimmta áratugarins hóf félagið glímuæfingar af kappi, en fram að því hafði glímuíþróttin í Reykjavík að mestu verið bundin við Ármann og Knattspyrnufélag Reykjavíkur. Samhliða glímuiðkuninni lagði félagið ríka áherslu á þjóðdansa, s.s. vikivaka. Ungmennafélag Reykjavíkur fékk úthlutað lóð undir félagsheimili og íþróttasvæði við Holtaveg í byrjun sjötta áratugarins og tók í notkun félagssal árið 1957. Vöknuðu þá vonir um að uppbyggingarskeið væri hafið hjá félaginu, ekki tókst þó að ljúka við byggingu hússins og varð félagið fyrir þungu áfalli þegar Stefán Runólfsson, helsti forystumaður þess og drifkraftur í byggingaframkvæmdunum féll frá á árinu 1961. Árið eftir var Ungmennafélag Reykjavíkur lýst gjaldþrota en húseignin við Holtaveg koms í eigu KFUM og KFUK.
Heimild
breyta- Jón M. Ívarsson (2012). Saga Umsk. UMSK.