Guðmundur Jónsson (söngvari)
Guðmundur Jónsson (f. 10. maí 1920 í Reykjavík, d. 5. nóvember 2007) var einn fremsti óperusöngvari Íslands.
Guðmundur Jónsson | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fæddur | Guðmundur Jónsson 1920 |
Dáinn | 2007 |
Störf | Söngvari |
Hljóðfæri | Rödd |
Æviágrip
breytaForeldrar hans voru Halldóra Guðmundsdóttir frá Akranesi og Jón Þorvarðsson, kaupmaður í Reykjavík.
Æska og uppvöxtur
breytaVísir, sunnudagur 3. júll 1977,bls.6 - Árni Þórarinsson
Þú ert vesturbæingur frá fæðingu? „Ja, ég álpaðist að vísu til að fæðast í Skuggahverfinu. Það var þó bót í máli að pabbi var fæddur við Vesturgötuna. En ég flutti í vesturbæinn strax og ég hafði vit á, eða sex ára, og hef verið þar síðan".
KR-ingur? „Ég var skráður í KR áður en ég vissi hvað fótbolti var. En ég var alltaf og er enn óvirkur félagsmaður. Ég hef fyrst og fremst verið KR-ingur í anda. Ég tók aldrei virkan þátt i sparkinu. Hef sennilega verið of hægfara. Hins vegar trúi ég að ég hefði getað orðið góður langhlaupari sem krakki. Var fjandanum þolnari. Og er kannski enn. Samt hef ég eiginlega aldrei skilið langhlaupara og hugsanagang þeirra. Ég hef aldrei getað hlaupið út í buskann nema ég hafi átt erindi!" Varstu músíkalskur sem strákur? Áreiðanlega ekki. En móðir mín fór á söngskemmtun hjá Pétri Jónssyni þegar hún gekk með mig. Það getur hafa haft áhrif þótt þau hafi ekki komið fram fyrr en síðar". Þú hefur ekki verið settur til þess að læra á eitthvert hljóðfæri? „Það kom ósköp elskuleg kona heim annað slagið að reyna að segja mér til á píanó. Og ég get enn gutlað svolítið á það hljóðfæri. Held við fjárlögunum svokölluðu. Spila dálítið upp úr Kindabókinni. En þetta var nú ekki nám sem heitið gæti, þótt vissulega kæmi það að miklu gagni að kunna nóturnar þegar maður svo fór að læra að syngja". |
||
Nám og frami
breytaAlþýðublaðið Sunnudagur 17. febrúar 1945, bls.4-6 - Torolf Smith
— En hvenær datt þér annars í hug, að þú hefðir rödd, ég meina söngrödd. Varstu svona í barnaskóla?
„Onei, það var síður en svo. Ég þótti hafa háskalega rödd, var sagt, að ég syngi eins og hrafn og mátti helzt ekki koma nærri söng til þess að skemma ekki fyrir hinum krökkunum. Yfirleitt datt mér aldrei í hug, að ég hefði neina rödd, sem frambærileg væri. Ég var skáti og söng auðvitað oft með þeim á fundum okkar og ferðalögum og baulaði eins og ég gat. En svo bar við, að einn félagi minn sem hafði laglega söngrödd vildi læra að syngja meira, en hann var feiminn og óframfærinn og það var ég raunar líka. Við afréðum þá að fara til Péturs Jónssonar óperusöngvara og spyrja hann ráða. Svo fórum við til Péturs, enda þótt við værum lafhræddir og dauð feimnir við hann. En þegar við höfðum hitt Pétur breyttist þessi skoðun okkar. Hann reyndist og hefir reynzt hinn ágætasti kennari og félagi, alltaf fús til að leiðbeina og telja í mann kjark og hughreystingarorð. Svona byrjaði þetta." — Og hvernig fór svo á með ykkur Pétri"? „Ég var hjá Pétri meira eða minna í tvö ár og hann var hinn bezti kennari, sem ég get hugsað mér". Og svo segir Guðmundur við mig: ,,Þú þekkir Pétur, hann er prýðismaður, mesta valmenni." Jú, það get ég tekið undir, enda þótt ég hafi ekki stundað söngnám, en hitt er mér ljóst, að Pétur Jónsson hefir haft, ákaflega heillavænleg áhrif á þennan unga og efnilega söngvara. — Hvernig var það, réð Pétur þér svo til þess að halda áfram? „Pétur ráðlagði mér að halda áfram og raunar gerðu það fleiri, sem ég starfaði með í Tónlistarskólanum, eins. og til dæmis dr, Urbantschitsch. Og ég ákvað að halda áfram söngnámi." - Hvað var þitt fyrsta hlutverk, eða hvenær hélztu fyrst hljómleika? „Það var í „Árstíðunum" eftir Haydn, en annars hafði ég sungið nokkur smálög á skemmtunum." — Varstu ekki taugaóstyrkur í fyrsta skipti, sem þú komst svona fram opinberlega. Fór ekki flibbinn að bráðna og þú að tvístíga og gleyma setningum? spyr ég. ,,Nei, það gerði ég ekki. Ég hefi, þér að segja, aldrei verið taugaóstyrkur, eða nervös eins og það er kallað, á hljómleikum. Mér er hér um bil sama þess vegna, hvort ég syng fyrir nokkra kunningja eða heilt samkomuhús. Og svo kemst það líka upp í vana. Annars er talin hætta á því, að maður trassi sönginn og viðfangsefnin, ef maður er svona gerður, en ég held, að það geri ekkert til, ef maður veit af því, þá gætir maður sín." Eftir þetta söng Guðmundur í Jóhannesarpassíunni eftir Bach við góðan orðstír, eins og menn muna, og síðan hafði hann hljómleika úti á landi og loks 3 hljómleika í Reykjavík, áður en hann fór vestur haustið 1943. — Hvar stundaðir þú nám í Bandaríkjunum? „Ég var hjá manni að nafni Lazar Samuiloff, sjötugum Rússa í Los Angeles, en hann þykir mjög góður kennari og hefir reyndar kennt mörgum, sem síðar hafa komist langt á söngvabrautinni. Ef til vill þekkja menn bezt Nelson Eddy af þeim, sem stundað hafa nám hjá honum, en annars hefir hann kennt mörgum, sem síðar hafa sungið á Metropolitan óperunni í New York. Hann er prýðisgóður kennari. Hjá honum var ég um 9 mánaða skeið en kom svo aftur heim í haust sem leið. |
||
Söngvarinn
breytaStarfsferil sinn hóf Guðmundur sem skrifstofumaður en að framhaldsnámi loknu í söng helgaði hann sig söngnum, söngkennslu og störfum á tónlistardeild Ríkisútvarpsins. Árið 1966 varð hann framkvæmdastjóri RÚV og gegndi því til ársins 1985. Guðmundur Jónsson var um áratuga skeið í hópi fremstu og vinsælustu óperusöngvara á Íslandi en hann fór með á fjórða tug hlutverka í óperum og óperettum hjá Þjóðleikhúsinu og íslensku óperunni, þar á meðal titilhlutverk í fyrstu óperusýningu Þjóðleikhússins Rigoletto eftir Verdi 1951. Auk þess fór með ótal önnur söng- og leikhlutverk á sviði og í útvarpi og tók þátt í miklum fjölda tónleika, meðal annars með Karlakór Reykjavikur, innanlands og utan, með Sinfóniuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhúskórnum, Söngfélaginu Hörpu og Söngsveitinni Fílharmóníu. Guðmundur kenndi við Söngskólann í Reykjavík um árabil.
Musica, Marz 1950, 3. Árgangur, 2. Tölublað, bls.3-4
Nú hefir Guðmundur enn sýnt okkur nýja hlið á hæfileikum sínum, í óperettunni „Bláa Kápan" er Leikfélag Reykjavíkur uppfærir um þessar mundir. Hann leikur þar og syngur hlutverk hins kæna en þó hjartagóða fríherra v. Biebitz Biebitz, og þótt hann stæli leikstjórann nokkuð a. m. k. í fyrsta þætti, þykir áhorfendum ávalt vænt um drykkjurútinn, aðalsmanninn og klækjarefinn Biebitz.
Þessi fyrsti leiksviðssigur Guðmundar spáir góðu um framtíð íslenzkrar óperu í sambandi við Þjóðleikhúsið sem er nú senn að taka til starfa. Er fréttamaður yðar hitti Guðmund fyrir skömmu í kennslustofu hans við Sölfhólsgötu, var hann að búa sig undir kennslustörfin. Sigrar Guðmundar hafa ekki gert hann stoltan né drambsaman, hann er jafn kátur og látlaus og hann hefir alltaf verið. Látleysið er einmitt einkenni hins sanna listamanns, er hugsar um það eitt, að gera list sína sem fullkomnasta til gleði og ununar meðbræðrum sínum. — Og svo fórstu út? — Já, ég fór til Bandaríkjanna og var í einn vetur hjá Lazar Samuiloff rússneskum kennara, er rak skóla í Los Angeles. Um sumarið fór ég heim, en skömmu áður en ég fór út aftur, dó Samuiloff, og um veturinn var ég á skólanum, en dóttir hans, er hafði tekið að sér rekstur hans. Ef satt skal segja lærði ég sáralítið þann vetur, gerði lítið annað en að bíða eftir Karlakór Reykjavíkur. — Og svo hófst sú hin mikla för? — Það var sannkölluð sigurför, en það er að bera í bakkafullan lækinn að geta hennar nánar en gert hefir verið, Eftir að Bandaríkjaförinni lauk, var ég heima í eitt ár, en fór að því búnu til Svíþjóðar og var tvö ár á óperudeild, Musikaliska Akademísins í Stokkhólmi, að því búnu kom ég heim, og byrjaði söngkennslu í septemberlok. |
||
Tíminn líður
breytaVÍSIR Laugardagur 10. maí 1980, bls.29. – ATA
„Hérna strákar, fáið ykkur í nefið!", var það fyrsta, sem Guðmundur Jónsson, söngvari og framkvæmdastjóri hljóðvarpsins, sagði er Vísismenn komu í skrifstofuna hans í Útvarpshúsinu.
Við tökum í nefið og Bragi ljósmyndari hnerrar hressilega. „Þarna sjáið þið, neftóbakið er alveg bráðhollt enda ekki nema hressandi að hnerra". Guðmund er óþarfi að kynna — hann þekkja allir. Það kemur samt örugglega mörgum á óvart, að hann skuli verða sextugur í dag. „Ég er eiginlega hálf vantrúaður á það sjálfur, en ég finn ekkert til þess, það kemur kannski seinna. Þetta eru tæpast nokkur tímamót, nema þá á almanakinu". Um frægð og frama „Hafi ég nokkurn tíma haft áhuga á því að hella mér út í þennan „bransa" af fullum krafti, þá missti ég hann endanlega þegar ég var í Svíþjóð á árunum 47 - 49. Þar kynntist ég lítillega harðri samkeppninni, pústrunum og bakhrindingunum, sem tíðkuðust. Nú svo var Þjóðleikhúsið að hefja starfsemi sína og ég vonaði að þar fengist eitthvað að gera. Það hefur bæði reynst rétt og ekki rétt". — Er hægt að lifa á söngnum eingöngu á Íslandi? „Bentu mér á eitthvert 250 þúsund manna samfélag eða borg í heiminum, þar sem það er hægt". — Þú hefur þá ekki orðið fyrir vonbrigðum þegar þú komst heim? „Ég hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum allt mitt líf. Það er svo undarlegt, að á endanum snýst einhvern veginn allt manni til góðs. Ég er líka fæddur bjartsýnismaður.- Hjá mér er til dæmis aldrei til nema ein veðurspá: Sól til jóla. Það hlýtur fyrr eða síðar að koma að því að hún standist — ég er til þess að gera þolinmóður maður. Ég held líka að það sé miklu skemmtilegra að vera bjartsýnn, ég hreinlega nenni ekki hinu enda latur maður að efilisfari. Var sparkað frá tónlistardeildinni. Guðmundur hóf störf við Ríkisútvarpið árið 1954 og starfar þar enn. „Þetta er sérstaklega góður vinnustaður og gott fólk sem hér vinnur. Og það vinnur þó það sé hjá ríkinu. Ég hóf störf á tónlistardeildinni og þar var ég í 12 ár, eða þar til mér var sparkað þaðan". Þess má geta, að Guðmundur varð framkvæmdastjóri útvarpsins 1966. |
||
Íslensku tónlistarverðlaunin 2006
breytaRæða Garðars Cortes (brot)
Sönglistin er undursamleg list. Ef til vill undursamlegust allra lista. Í stórbrotnustu verkum tónbókmenntanna, óperulistinni, birtist einhver mesta snilligáfa sem mannsandinn hefur búið yfir, en þar að baki liggur mikill lærdómur, endalaus kunnátta og þrotlaus vinna. Nú getur enginn okkar sagt beint út hvað list er eða hvernig hún eigi að vera þannig að allir verði á eitt sáttir. Samt erum við oft furðu sammála um ýmsa menn, að þeir séu listamenn.
Einn slíkur maður er Guðmundur Jónsson, óperusöngvari og söngkennari. Hann hefur göfgað okkur með fagurri list sinni og ber því heitið listamaður með rentu. Guðmundur er sá í hópi íslenskra söngvara sem best er menntaður, kann mest skil á söng, söngtækni og söngkennslu. Reynsla hans eftir hálfrar aldar söngferil er ótrúleg, óviðjafnanleg. Á ferli sínum sýndi hann og sannaði að smáþjóð á möguleika á að eignast stórmenni á hvaða sviði sem er. Enginn vafi er á því að Guðmundur gat lagt út á braut óperuhúsa og konsertsala á alþjóðlegum vettvangi, en hann kaus frelsið, kaus að fara heim að námi loknu, gerast íslenskur listamaður Sú ákvörðun var afdrifarík fyrir íslenskt samfélag. Guðmundur hefur verið í fararbroddi sl. 55 ár sem söngvari og kennari, uppalandi nýrrar kynslóðar söngvara. Sú ákvörðun verður aldrei metin til fulls né þökkuð nægilega. Guðmundur er gamansamur maður, léttur í lund og stutt í spaug og gamanmál. Hann býr yfir mjög góðri máltilfinningu, er skáldmæltur með gott brageyra, enda hefur hann þýtt margar óperur, óperettur og söngleiki til flutnings á óperusviði. Hann er kennari af Guðs náð og hefur unnið ómetanlegt starf við uppbyggingu og kennslu við Söngskólann í Reykjavík. Hann bauð okkur síðast til tónleika þegar hann var 70 ára. Ógleymanlegir tónleikar þar sem hann, á efri árum, sýndi hvernig reynsla og tækni hins sanna listamanns, vinnur gegn öllum lögmálum og normum. Nú er komið að því að semja við Guðmund um að hann verði heiðraður fyrir sitt lífsstarf og gjöf til íslensku þjóðarinnar. Það verður ekki auðvelt því hann er eflaust gjörsamlega á öndverðum meiði um allt sem hér er skrafað og kallar það algjöran óþarfa. En þannig er Guðmundur og því verður ekki breytt. |
||
Útgefið efni
breytaFálkinn
breyta78 snúninga
- HMV DB 30007 - Skín frelsisröðull fagur // Agnus dei - Karlakór Reykjavíkur, sóló: Guðmundur Jónsson – 1953
- HMV JOR 205 - Nú hnígur sól // Hraustir menn - Karlakór Reykjavíkur, sóló: Guðmundur Jónsson 1953
- HMV JOR 240 - Nú andar suðrið (Titill leiðréttur) Á leið til Mandalay // Skógræktarljóð - Karlakór Reykjavíkur, sóló: Guðmundur Jónsson - 1957
- HMV JOR 401 - Bára blá//Ma Curly-Headed Babby - Guðmundur Jónsson, baryton - 1956
- HMV JOR 402 - Faðir vor // Vögguljóð Rúnu - Guðmundur Jónsson, baryton - 1956
- HMV JOR 403 - Norður við heimskaut // Þótt þú langförull legðir - Guðmundur Jónsson, baryton - 1956
- HMV JORX 102 - Vögguvísa // Milano Norrönafolket - Karlakór Reykjavíkur, sóló: Guðmundur Jónsson - 1953
45 snúninga
- CBEP 19 - Dansvísa / Fyrir átta árum / Heimþrá // Útlaginn / Ævintýri á gönguför / Á leið til Mandalay - Guðmundur Jónsson – 1965
HSH
breyta78 snúninga
- JO 97 - Heimir // Mamma - Guðmundur Jónsson – 1945
- JO 99 - Bikarinn // Rósin - Guðmundur Jónsson – 1945
- JO 100 - Söngur ferjumannanna á Volgu // Songs of songs, meyja - Guðmundur Jónsson – 1945
- HSH 17 - Lofsöngur // Heims um ból - Guðmundur Jónsson - 1954
SG hljómplötur
breytaLP
- SG 022 - Guðmundur Jónsson - Lax lax lax - 1969
- SG 044 - Karlakór Reykjavíkur - Syngur lög eftir Árna Thorsteinsson - 1971
- SG 057 - Einsöngvarakvartettinn - Einsöngvarakvartetinn - 1972
- SG 084 - Lúðrasveit Reykjavíkur, Guðmundur Jónsson - Lúðrasveit Reykjavíkur - 1975
- SG 088 - Guðrún Á. Símonar & Guðmundur Jónsson - Guðrún Á. Símonar & Guðmundur Jónsson - 1975
- SG 117 - Einsöngvarakvartettinn - Syngur lög Inga T. Lárussonar - 1978
- SG 155 - Guðmundur Jónsson - Einsöngslög & óperuaríur - 1982
Steinar
breytaCD
- TECD 103-6 - Guðmundur Jónsson - Hljóðritanir 1945 - 1990 - 1990
- SGCD 022 - Guðmundur Jónsson - Lax Lax Lax - 1992
GKO
breytaCD
Neðanmálsgreinar
breytaTenglar
breyta- „Viðtöl við meistara“, af heimasíðu Félags íslenskra söngkennara
- - Íslensku tónlistarverðlaunin 2006
- Tónlist.is
- Glatkistan