George Sand[1] var listamannsnafn franska rithöfundarins, gagnrýnandans, leikritaskáldsins og blaðamannsins Amantine Aurore Lucile Dupin (1. júlí 18048. júní 1876). Sand var einn afkastamesti rithöfundur síns tíma og skrifaði á ferli sínum sjötíu skáldsögur og fimmtíu bindi af margvíslegu efni, þ. á m. smásögum, leikritum, endurminningum og stjórnmálaritgerðum.

Málverk af George Sand eftir Auguste Charpentier frá árinu 1838.

George Sand fór að fordæmi langömmu sinnar, sem hún dáðist mjög að[2] og barðist fyrir kvenréttindum, gagnrýndi hjónabönd og beitti sér gegn fordómum íhaldssams samfélagsins. Sand var nokkuð alræmd vegna fjölmargra ástarsambanda sinna, fyrir að klæða sig í karlmannsfötum og fyrir að nota karlmannsnafn sem listamannsnafn. Nafnið George Sand tók hún upp árið 1829[3] og gerði það að nokkurs konar tísku meðal kvenhöfunda að undirrita verk sín með karlmannsnöfnum.

Þrátt fyrir að eiga sér fjölmarga gagnrýnendur á borð við Charles Baudelaire og Jules Barbey d'Aurevilly var George Sand virkur þátttakandi í vitsmuna- og menningarsamfélagi síns tíma og tók á setri sínu í Nohant-Vic og í Palaiseau við fjölbreyttum gestum, þ. á m. Franz Liszt, Frédéric Chopin, Marie d'Agoult, Honoré de Balzac, Gustave Flaubert og Eugène Delacroix. Sumum þeirra gaf hún ráðleggingar og hvatti aðra áfram. Hún var góðvinur Victors Hugo í gegn um bréfaskipti en þau hittust þó aldrei augliti til auglitis.

Frá og með árinu 1848 var George Sand einnig virk í stjórnmálum og tók þátt í útgáfu þriggja tímarita: La Cause du peuple, Le Bulletin de la République og l'Éclaireur þar sem hún biðlaði til Napóleons III að hlífa pólitískum föngum, þar á meðal Victor Hugo.

Ritverk hennar eru afar fjölbreytt og oft staðsett í héraðinu Berry. Fyrstu skáldsögur hennar, líkt og Indiana (1832), höfnuðu ýmsum samfélagsgildum og lögðu áherslu á kvenréttindabyltinguna með því að sýna skoðanir og tilfinningar kvenna, sem þá var fáheyrt og umdeilt bæði meðal almennings og í bókmenntaelítunni. Sand tók einnig fyrir víðari samfélagsgagnrýni og gerðist málsvari verkamanna og fátæklinga. Hún ímyndaði sér stéttlaust samfélag án átaka. Seinna sneri hún sér að landsbyggðinni og samdi sveitaskáldsögur í rómantískum stíl líkt og La Mare au diable (1846), François le Champi (1848), La Petite Fadette (1849) og Les Maîtres sonneurs (1853).

George Sand var frumkvöðull í sagnageirum líkt og sjálfsævisögum og sögulegum skáldsögum. Á efri árum samdi hún fjölda leikrita sem ekki voru gefin út eða sett á svið fyrr en eftir hennar ævidaga.

Tilvísanir

breyta
  1. Pierret, Jean-Marie, Phonétique historique du français et notions de phonétique générale, Série pédagogique de l'Institut de linguistique de Louvain, Éditions Peeters-France, Louvain-la-Neuve, 1994
  2. Sand, George, Histoire de ma vie, Éditions Michel Lévy frères, París, 15. apríl 1847, 1. útgáfa 1856, I. bindi, 2. kafli.
  3. De Beaumarchais, Jean-Pierre. Couty, Daniel. Rey, Alain.Dictionnaire des littératures de langue française. Éditions Bordas. 1999. III. bindi.