Giosuè Carducci
Giosuè Carducci (27. júlí 1835 – 16. febrúar 1907) var ítalskt skáld og rithöfundur. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1906, fyrstur Ítala.
Ævi og störf
breytaCarducci fæddist í bænum Pietrasanta í Toskanahéraði. Faðir hans var læknir og einlægur stuðningsmaður sameiningar Ítalíu. Komu stjórnmálaafskipti hans fjölskyldunni í nokkur vandræði og þurfti hún oft að flytjast búferlum. Í skóla drakk Carducci í sig allt sem tengdist sögu og menningu Rómaveldis og Grikklands hins forna. Eftir útskrift gerðist hann kennari og tók að senda frá sér ljóð.
Hann varð prófessor í ítölskum bókmenntum við Háskólann í Bologna, þar sem hann varð vinsæll fyrirlesari. Hann tók virkan þátt í þjóðmálaumræðu og var þar gagnrýninn á íhaldssemi kaþólsku kirkjunnar. Á stjórnmálasviðinu var hann lengi frjálslyndur lýðveldissinni, en varð með tímanum sífellt hallari undir konungsvaldið. Samhliða eigin ritstörfum var hann mikilvirkur þýðandi og þýddi t.a.m. ljóð eftir Goethe og Heinrich Heine á ítölsku.
Carducci lést árið 1907, árið eftir að hafa hlotið bókmenntaverðlaun Nóbels.