Gamlar rímur
Gamlar rímur er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytur kvæðamaðurinn Kjartan Hjálmarsson tuttugu gamlar rímur. Dr. Hallgrímur Helgason skrifar umfjöllun um íslensk rímnalög á bakhlið plötuumslags. Platan er hljóðrituð í mono. Hún var tekin upp í Ríkisútvarpinu, hönnuð hjá Amatörversluninni ljósmyndastofu og pressuð hjá AS Nera í Osló.
Gamlar rímur | |
---|---|
EXP-IM 75 | |
Flytjandi | Kjartan Hjálmarsson |
Gefin út | 1960 |
Stefna | Rímur |
Útgefandi | Íslenzkir tónar |
Lagalisti
breyta- Hvað er skáld? - ⓘ
- Í helli tröllkonunnar
- Breyskleikinn verður fyrirgefinn
- Þeysandi smalar
- Þrá eftir björtum nóttum
- Æðruleysi gamla kóngsins
- Víkingar ganga á land
- Bros gegnum tár
- Raunir bóndakonunnar
- Hesturinn Ufsi og smalinn einmana
- Rósir
- Bardagaljóð
- Sagan af Garðaríkiskonungi
- Hirðin er ósátt
- Á valdi Bakkusar
- Hulda seiðir huga minn
- Bóndinn í fenntum bæ
- Listaskáldið góða
- Skipið og öldurnar
- Ertu þarna, dauði?
Textabrot af bakhlið plötuumslags
breytaÍslenzk rímnalög.
Einkennandi fyrir íslenskan kveðskap gegnum aldirnar er ljóðastafsetningin. Í byrjun 12. aldar var á Íslandi upp komin ljóðagrein, er kveðin var undir dansi milli pilta og stúlkna. Þessir dansar voru án stuðlasetningar. En er fram í sótti fundu menn ekki fullnægingu í því að hafa um hönd þesskonar kveðskap. Menn söknuðu hinnar sterku byggingar stuðlasetningarinnar. Því er það að fram kemur nýtt form á miðri 14. öld, rímur, þar sem stuðlarnir eru teknir upp aftur. Rímur (nom. plur. af ríma) voru langar rímaðar frásagnir af hetjum, köppum og ofurhugum. Þessi grein íslensks miðaldarkveðskapar er því upprunalega hreint hetjuljóð (poema heroum). Ferskeyttur háttur með víxlrími varð fljótt vinsælasti braghátturinn (til skiptis karl og kvenrím). Og ríman var kveðin undir dansi. Hún byrjaði gjarna á mansöng, lofi um kosti kvenna. Þegar ort var um ævi kappanna, nægði oft ekki ein ríma, sem gat talið 80-100 vísur. Var þá saminn heill rímnaflokkur með allt að 60 rímum. Að minnsta kosti með hverri rímu var skipt um braghátt. Afbrigði braghátta eru á þriðja þúsund talsins. Rímur voru kveðnar. Þær voru hvorki sagðar né sungnar, heldur fluttar meö hálfsyngjandl röddu (media vox). Mikill fjöldi kvæðamanna fór löngum um sveitir landsins og skemmti með rímnaflutningi. Hafði þetta mikla þýðingu. Bændastofan varð að skemmtilegum vetvangi ævintýralegra afreka, þar að auki hélzt tungan hrein og óbreytt gegnum hundruð þúsunda af rímnaerindum. Menn lærðu margvíslega braghætti og margskonar lög. Og síðast en ekki síst var hetjuskapur rímnanna uppörvun og huglétting í baráttu landsfólks gegn hverskonar kúgun og yfirgangi erlendra valdhafa. Hetjan var ímynd baráttunnar og glæst fyrirmynd. Auðlegð íslenzkra þjóðlaga er langmest á sviði rímna. Tónrænt hugvit þjóðarinnar er hér nær takmarkalaust. Í sex hundruð ár hafa þessi lög hljómað í baðstofu bóndans, í verbúðum fiskimannsins, á hátíðum og í allskonar mannfagnaði. Og nú taka tónskáldin þessi alþýðustef og nota þau sem efnivið í þjóðlegar tónsmíðar. Þessi tuttugu dæmi um íslenzk rímnalög, eiga að sýna, hvernig Íslendingar hafa varðveitt merkilegan miðaldararf allt fram til nútímans. Rækt við þjóðleg verðmæti er vafalaust sá leiðarsteinn sem tryggastur er hverri þjóð til velfarnaðar nú og um alla framtíð. - Dr. Hallgrímur Helgason |