Fuggerei er lítið íbúðahverfi í borginni Ágsborg í Þýskalandi sem bankamaðurinn Jakob Fugger stofnaði til 1516 fyrir fátæklinga. Húsin eru elstu félagsíbúðir heims sem enn standa.

Strætið Herrengasse í Fuggerei

Saga Fuggerei

breyta
 
Brjóstmynd af Jakob Fugger
 
Mikhail Gorbatsjev og Maria Elisabeth von Thun-Fugger skoða Fuggerei

Það var bankamaðurinn Jakob Fugger sem lét reisa fátækrahverfið fyrir verkafólk, launamenn og fátæklinga sem í borginni bjuggu. Milli 1516-1521 voru 52 lágreistar íbúðir reistar. Íbúðirnar eru í tveggja hæða raðhúsum og eru litlar á nútíma mælikvarða, en á 16. öld var þetta rausnarleg gjöf frá Fugger. Krafist var leigu, en hún var lág. Eitt gyllini á ári. Hugmyndin var að fátækir verkamenn og launamenn sem voru í erfiðleikum, t.d. sökum veikinda, gátu búið áhyggjulaust í borginni og sinnt starfi sínu vandkvæðalaust. 1581-82 var lítil kirkja reist í hverfinu sem hét Markúsarkirkja (St. Markus). Svíar voru í borginni í 30 ára stríðinu. 1642 eyðilögðu þeir húsin í hverfinu. Eftir brotthvarf þeirra voru þau endurreist og fengu fátækir athvarf þar á ný. Síðla á 17. öld bjó þar Franz Mozart, langafi Wolfgangs Amadeusar, en Mozart-ættin er frá Ágsborg. Í loftárásum bandamanna 1944 eyðilögðust tveir þriðju hlutar hverfisins. Afkomendur Fugger-ættarinnar ákváðu að endurreisa húsin. 1947 gátu fyrstu íbúar snúið þangað aftur. Viðgerðum lauk á sjötta áratugnum.

Fuggerei í dag

breyta

Í dag eru húsin alls 67 með 140 íbúðum. Flest eru 60 m² að stærð. Inntökuskilyrðin eru enn þau sömu og á 16. öld. Þau eru:

Að vera Ágsborgari
Að vera kaþólskur
Að vera með hreint sakavottorð
Að vera fjárhagslega til þess að gera illa stæður

Leigan er enn eitt gyllini á ári, þ.e. samsvarandi einu gyllini eins og það var á 16. öld. Það reiknast 88 cent í dag. Rafmagn og vatn greiða leigutakar. Átta lítil stræti ganga í gegnum hverfið, sem enn afmarkast af stórum veggjum. Þrjú hlið liggja þangað inn. Ferðamönnum er heimilt að ganga um hverfið, en það er lokað milli 22 að kvöldi og 5 að morgni. Fuggerei er enn stjórnað af afkomendur Fugger-ættarinnar. Til viðhalds hverfinu kemur fjármagn frá ýmsum fasteignum og frá skóglendi í grennd. Hin mikla ferðamennska skilur einnig eftir dágóða fjármuni í formi aðgangseyris. Enn í dag er Fuggerei elsta félagshverfi heims sem enn stendur.

Heimildir

breyta