Frjáls fjölmiðlun
Frjáls fjölmiðlun hf. var íslenskt fjölmiðlafyrirtæki og bókaforlag sem var áberandi á 10. áratug 20. aldar. Fyrirtækið var stofnað utan um útgáfu dagblaðsins DV árið 1981. Eigendur Dagblaðsins og Vísis eignuðust hvorir um sig helming í nýja félaginu en stjórnarformaður var Sveinn R. Eyjólfsson.
Auk þess að gefa út DV fékkst fyrirtækið við útgáfu á kiljum og gaf út tímaritin Vikuna og Úrval (Reader's Digest) um tíma. Á 10. áratugnum eignaðist það smám saman leifar gömlu flokksblaðanna, Tímans, Alþýðublaðsins og Vikublaðsins (arftaka Þjóðviljans) auk Dags á Akureyri. Árið 1997 voru þessi blöð „sameinuð“ í eitt dagblað, Dag-Tímann sem ári síðar var breytt í Dag. Dagur kom út til ársins 2001.
Árið 2001 ákvað Frjáls fjölmiðlun hf. að hefja útgáfu nýs dagblaðs, Fréttablaðsins, sem dreift yrði ókeypis í hús á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndin að blaðinu kom frá norrænum metróblöðum sem er dreift ókeypis og liggja frammi á lestarstöðvum. Munurinn var hins vegar sá að Frjáls fjölmiðlun ætlaði að bera blaðið í hús. Þetta viðskiptalíkan reyndist kostnaðarsamt og félagið varð gjaldþrota árið 2002. Fréttablaðið var selt til Fréttar ehf. (í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar m.m.) en DV til félagsins ESÓB ehf. sem var hópur fjárfesta með Óla Birni Kárasyni, ritstjóra blaðsins.