Svifdiskur

(Endurbeint frá Frisbee)

Svifdiskur eða frisbí (stundum stafað frisbee) er disklaga leikfang úr plasti, með rúnnaða brún, og um 20 til 25 cm að þvermáli. Lögun disksins er vængsnið í þverskurði sem veldur því að hann getur flogið með því að lyfta sér þegar hann snýst áfram í loftinu. Að kasta og grípa frisbeediska er bæði tómstundagaman og hluti margra mismunandi flugdiskaíþróttagreina. Á markaðnum eru margar tegundir flugdiska.

Maður grípur svifdisk.

Elsti þekkti disklaga hluturinn sem kastað var er chakram, sem notað var sem vopn í Indlandi til forna. Nú á dögum hafa flugdiskar verið notaðir í tómstundum. Leirdúfur sem notaðar eru til leirdúfuskotfimi, og sem eru nánast eins í lögun og flugdiskar, voru hannaðar á 19. öld.

Seinna urðu til flugdiskar sem eru sérstaklega hannaðir og framleiddir til sölu. Í Bridgeport, Connecticut í Bandaríkjunum framleiddi The Frisbie Pie-fyrirtækið bökur og seldu þær til margra háskóla á Nýja Englandi. Svangir háskólastúdentar uppgötvuðu fljótt að þeir gátu kastað á milli sín og gripið tóm bökumótin og varð það þeim til skemmtunar um langa hríð.

Árið 1946 teiknaði Walter Frederick Morrison uppdrátt að diski sem hann kallaði Whirlo-Way, og var það fyrsti svifdiskurinn úr plasti sem framleiddur var sem söluvara. Hann var ekki sérlega vinsæll. Árið 1955 framleiddi Morrison nýjan svifdisk úr plasti sem kallaður var Pluto Platter. Reyndi hann með því að höfða til aukinna vinsælda fljúgandi furðuhluta (UFO) meðal bandarísks almennings. Pluto Platter-hönnunin varð svo grunnurinn að hönnun seinni svifdiska. Árið 1957 hóf Wham-O fyrirtækið framleiðslu á uppgötvun Morrisons og var hún markaðssett með nafninu Frisbee. Árið eftir var Morrison úthlutað bandarísku vörumerki (US Design Patent 183.626) vegna svifdiska sinna.

Svifdiskaíþróttir

breyta

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta