Friedrich Merz

Þýskur stjórnmálamaður

Friedrich Merz (f. 11. nóvember 1955) er þýskur lögfræðingur og stjórnmálamaður sem hefur verið formaður Kristilega demókrataflokksins (CDU) frá janúar 2022.[1] Hann sat á Evrópuþinginu frá 1989 til 1994 og á þýska þinginu frá 1994 til 2009. Hann var þingflokksformaður Kristilegra demókrata frá 2000 til 2002.

Friedrich Merz
Friedrich Merz árið 2024.
Formaður Kristilega demókrataflokksins
Núverandi
Tók við embætti
31. janúar 2022
ForveriArmin Laschet
Persónulegar upplýsingar
Fæddur11. nóvember 1955 (1955-11-11) (69 ára)
Brilon, Norðurrín-Vestfalíu, Vestur-Þýskalandi (nú Þýskalandi)
ÞjóðerniÞýskur
StjórnmálaflokkurKristilegi demókrataflokkurinn (CDU)
MakiCharlotte Merz ​(g. 1981)
TrúarbrögðKaþólskur
Börn3
HáskóliHáskólinn í Bonn
Háskólinn í Marburg
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Uppvöxtur og fyrstu störf

breyta

Friedrich Merz fæddist í Brilon og er af kaþólskum ættum. Hann er sonur dómarans Joachims Merz, sem var meðlimur í CDU til ársins 2007.[2] Móðir hans, sem fæddist undir ættarnafninu Sauvigny, er af ættum franskra húgenotta.[3]

Merz lauk stúdentsprófi árið 1975 og gegndi herþjónustu í brynvarinni stórskotaliðsherdeild í vestur-þýska hernum frá 1975 til 1976. Frá 1976 nam hann lögfræði við Háskólann í Bonn og síðan við Háskólann í Marburg með námsstyrk frá Konrad Adenauer-stofnuninni. Hann tók fyrsta lögfræðipróf sitt árið 1982 og annað árið 1985. Merz var dómari í Saarbrücken frá 1985 til 1986 og vann frá 1986 til 1989 sem lögfræðingur hjá efnaiðnaðinum í Bonn og Frankfurt.[4][5]

Friedrich Merz er kvæntur dómaranum Charlotte Merz og á þrjú börn.

Merz er með flugmannsréttindi og á sjálfur tvær flugvélar.[6]

Stjórnmálaferill til 2009

breyta
 
Merz á kosningaplakati fyrir Evrópuþingskosningarnar 1989.

Merz gekk í ungliðahreyfingu CDU og CSU (þ. Junge Union) árið 1972, þegar hann var sautján ára gamall. Hann er aðili að Andes-sáttmálanum (þ. Andenpakt), óformlegu tengslaneti sem var upphaflega stofnað af meðlimum ungliðahreyfingarinnar á ferðalagi til Andesfjalla í Suður-Ameríku árið 1979.[7] Árið 1980 varð hann leiðtogi deildar ungliðahreyfingarinnar í heimabæ sínum, Brilon.

Árið 1989 var Merz kjörinn á Evrópuþingið og átti sæti þar til ársins 1994. Hann sat í efnahags-, gjaldeyris- og iðnaðarmálanefndum þingsins.[8]

Merz var kjörinn á þýska sambandsþingið (þ. Bundestag) í kjördæmi í Hochsauerlandkreis árið 1994. Þar hlaut hann sæti í fjármálanefnd og varð talsmaður fjármálastefnu Kristilegra demókrata árið 1996. Árið 1998 varð hann varaþingflokksformaður CDU og CSU, og árið 2000 tók hann við af Wolfgang Schäuble sem þingflokksformaður. Merz varð þingflokksformaður um leið og Angela Merkel varð flokksformaður og litið var á þau tvö sem keppinauta um völd innan Kristilega demókrataflokksins í kringum aldamótin. Merz var meðlimur í skuggaríkisstjórn Edmunds Stoiber, sem var kanslaraefni Kristilegra demókrata í þingkosningunum 2002. Eftir að Stoiber tapaði kosningunum tók Merkel sjálf við sem þingflokksformaður og Merz varð varaþingflokksformaður til ársins 2004. Eftir það dró hann sig úr forystu flokksins. Árið 2008 tilkynnti hann að hann hygðist ekki gefa kost á sér til endurkjörs í þingkosningum ársins 2009.

Störf sem viðskiptalögfræðingur

breyta

Frá árinu 2009 vann Merz sem viðskiptalögfræðingur og átti sæti í fjölda stjórna og nefnda í viðskiptageiranum. Árið 2016 varð hann meðlimur í fulltrúaráði (Aufsichtsrat) Þýskalandsdeildar BlackRock, stærsta eignastýringarfyrirtækis í heimi, en sagði af sér árið 2020.[9]

Formannskjör í CDU

breyta

Árið 2018 tilkynnti Merz að hann myndi gefa kost á sér í formannskjöri CDU eftir að Angela Merkel hafði gefið út að hún hygðist hætta. Framboð hans var stutt af fyrrum formanni flokksins, Wolfgang Schäuble. Á landsþingi flokksins þann 7. desember 2018 tapaði Merz í síðustu atkvæðagreiðslunni gegn Annegret Kramp-Karrenbauer.[10]

Kramp-Karrenbauer sagði af sér árið 2020 og Merz bauð sig fram til formanns að nýju á landsþingi flokksins í apríl 2021. Á landsþinginu kusu 1001 kjörmenn flokksins um nýjan formann. Af þeim greiddu 992 gild atkvæði í fyrstu umferð. Niðurstaðan varð sú að Merz lenti í fyrsta sæti með 385 atkvæði en Armin Laschet kom skammt á eftir með 380. Norbert Röttgen fékk 224 atkvæði og komst því ekki í aðra umferð. Í seinni umferðinni voru greidd 991 atkvæði. Laschet vann þar sigur með 521 atkvæðum gegn 466 sem Merz hlaut og var þar með kjörinn flokksformaður CDU.[11][12][13]

Armin Laschet sagði af sér sem flokksformaður eftir að Kristilegir demókratar töpuðu í þingkosningum Þýskalands árið 2022. Merz bauð sig fram til formanns í þriðja sinn og vann í þetta sinn sigur. Hann hlaut 62,1% at­kvæða í kosn­ing­un­um, Nor­bert Rött­gen hlaut 25,8% og Hel­ge Baun 12,1%.[14]

Þingkosningarnar 2025

breyta

Í september 2024 tilkynntu Kristilegir demókratar að Merz yrði kanslaraefni flokksins í næstu þingkosningum.[15]

Stjórnmálaskoðanir

breyta

Merz hefur lagt mikla áherslu á utanríkis- og öryggismál, efnahagsmálum og fjölskyldumál. Hann hefur lýst sjálfum sér sem félagslegum íhaldsmanni og efnahagslegum frjálslyndismanni. Þegar hann sat á þingi var Merz talinn tilheyra þeim væng Kristilega demókrataflokksins sem var vinveittastur viðskiptalífinu. Í kringum aldamótin tjáði Merz sig jafnframt mikið um inngildingu innflytjenda og notaði hugtakið Leitkultur („forystumenning“ eða „leiðandi menning“) í pólitískum rökræðum. Merz er meðlimur í þýsku Atlantshafsnefndinni, Atlantik-Brücke, sem vinnur við að efla tengsl Þýskalands og Bandaríkjanna, og styður jafnframt Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið. Hann hefur lýst sjálfum sér sem „sannfærðum Evrópumanni, stuðningsmanni Atlantshafssamstarfs, Þjóðverja sem [sé] opinn fyrir heiminum“.[16] Merz er ötull gagnrýnandi Donalds Trump, sér í lagi tollastríða Trumps.[17] Árið 2018 skrifaði hann, ásamt Jürgen Habermas, grein þar sem forsendur Evrópusamvinnunar voru varðar.[18]

Tilvísanir

breyta
  1. NRK (22. janúar 2022). „CDU velger Friedrich Merz til ny leder“. NRK (norskt bókmál). Sótt 22. janúar 2022.
  2. Lohse, Eckart; Berlin. „Friedrich Merz: Dieser Kandidat passt nicht auf einen Bierdeckel“ – gegnum www.faz.net.
  3. Claus Jacobi, Im Rad der Geschichte: Deutsche Verhältnisse, bls. 166, Herbig, 2002
  4. „Friedrich Merz - Atlantik-Brücke e.V.“. Atlantik-Brücke e.V. (þýska). Afrit af upprunalegu geymt þann 31. október 2018. Sótt 30. október 2018.
  5. „Deutscher Bundestag: Merz, Friedrich“. webarchiv.bundestag.de. Sótt 12. febrúar 2020.
  6. „Ex-CDU-Star Friedrich Merz und der Karriereknick - manager magazin“.
  7. Schumacher, Hajo (3. nóvember 2005). „Union: "Anden-Pakt" nimmt Friedrich Merz auf“ – gegnum Spiegel Online.
  8. „3. valgperiode | Friedrich MERZ | Medlemmer | Europa-Parlamentet“. www.europarl.europa.eu (danska). Sótt 12. febrúar 2020.
  9. „Friedrich Merz: Persönliche Erklärung zum Aufsichtsratsvorsitz von BlackRock“. Friedrich Merz (þýska). 5. febrúar 2020. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. febrúar 2020. Sótt 12. febrúar 2020.
  10. „Liveblog zum CDU-Parteitag: Annegret Kramp-Karrenbauer ist neue Vorsitzende der CDU“. FAZ.NET (þýska). ISSN 0174-4909. Sótt 12. febrúar 2020.
  11. Markús Þ. Þórhallsson (16. janúar 2021). „Armin Laschet kjörinn formaður Kristilegra demókrata“. RÚV. Sótt 13. apríl 2021.
  12. „Armin Laschet er arftaki Merkel“. mbl.is. 13. apríl 2021. Sótt 16. janúar 2021.
  13. Snorri Másson (16. janúar 2021). „Hver vill verða kansl­ari?“. mbl.is. Sótt 13. apríl 2021.
  14. „Merz nýr leiðtogi Kristilegra demókrata“. mbl.is. 17. desember 2021. Sótt 17. desember 2021.
  15. Atli Ísleifsson (17. september 2024). „Verður kanslara­efni Kristi­legra demó­krata“. Vísir. Sótt 19. september 2024.
  16. WELT (31. október 2018). „Merz will CDU-Chef werden: „Wir brauchen Aufbruch und Erneuerung, keinen Umsturz". DIE WELT. Sótt 12. febrúar 2020. „ein überzeugter Europäer, ein Transatlantiker, ein weltoffener Deutscher“
  17. https://www.bloomberg.com/opinion/articles/2018-11-01/merkel-s-would-be-successor-merz-is-a-real-german-conservative
  18. „Time to wake up: We are deeply concerned about the future of Europe and Germany“. www.handelsblatt.com (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 20. janúar 2022. Sótt 22. janúar 2022.