François Guizot

Franskur sagnfræðingur og stjórnmálamaður (1787-1874)

François Pierre Guillaume Guizot (4. október 1787 – 12. september 1874) var franskur sagnfræðingur og stjórnmálamaður. Guizot var mjög áhrifamikill í stjórnmálum Frakklands fyrir byltingu ársins 1848. Hann var frjálslyndur íhaldsmaður sem var á móti tilraunum Karls 10. Frakklandskonungs til að sölsa undir sig löggjafarvaldið. Guizot vann því að því að stofna og viðhalda þingbundnu konungdæmi eftir júlíbyltinguna árið 1830.

François Guizot
Forsætisráðherra Frakklands
Í embætti
18. september 1847 – 24. febrúar 1848
ÞjóðhöfðingiLoðvík Filippus
ForveriJean-de-Dieu Soult
EftirmaðurLouis-Mathieu Molé
Persónulegar upplýsingar
Fæddur4. október 1787
Nîmes, Frakklandi
Látinn12. september 1874 (86 ára) Saint-Ouen-le-Pin, Frakklandi
MakiPauline de Meulan (1812–1827)
Élisa Dillon (1828–1833)
BörnFrançois (1819–1837)
Henriette (1829–1908)
Pauline (1831–1874)
Guillaume (1833–1892)
StarfSagnfræðingur, kennari, stjórnmálamaður

Eftir júlíbyltinguna gekk Guizot í þjónustu „borgarakonungsins“ Loðvíks Filippusar og var menntamálaráðherra (1832–37), sendiherra til London, utanríkisráðherra (1840–1847) og loks forsætisráðherra (1847–1848) í ríkisstjórnum hans. Sem ráðherra vann Guizot að því að auka menntun almenningsins. Á ráðherratíð hans voru stofnaðir almenningsskólar fyrir börn í öllum sýslum Frakklands. Guizot var leiðtogi frjálslyndra einveldissinna sem studdu Loðvík Filippus og beittu sér gegn frekari víkkun atkvæðaréttar. Frjálslyndir vinstrimenn og lýðveldissinnar hötuðu Guizot fyrir að vilja einskorða kosningaréttinn við karlmenn með tilteknar lágmarkseignir upp á vasann og fyrir að segja fátækari mönnum sem vildu kjósa að græða einfaldlega meiri pening með ötulsemi og vinnuþjarki.

Guizot varð alræmdur fyrir ummælin „Enrichissez-vous“ („Auðgið ykkur“), sem hann á að hafa sagt í svari til fátækra manna sem kvörtuðu yfir því að hafa ekki kosningarétt vegna krafa um lágmarkseign. Óvíst er þó hvort Guizot sagði þetta nokkurn tímann í rauninni eða hvort andstæðingar hans lögðu honum þessi orð í munn eða tóku þau úr samhengi til að rægja hann.[1][2]

Sem forsætisráðherra reyndi Guizot að hafa hemil á stjórnarandstöðunni með því að banna pólitískar fjöldasamkomur frjálslyndismanna sem vildu víðari kosningarétt.[3] Þetta bann átti þátt í að espa upp byltingu ársins 1848 sem batt enda á stjórn Loðvíks Filippusar og leiddi til stofnunar annars franska lýðveldisins. Guizot neyddist til að segja af sér og víkja fyrir frjálslyndari ráðherra snemma eftir að byltingin braust út en afsögn hans var ekki nóg til að friðþægja byltingarmennina.

Karl Marx minnist sérstaklega á Guizot í byrjun Kommúnistaávarpsins (1848) og nefnir hann þar sem einn af óvinum kommúnismans:

„Vofa gengur nú ljósum logum um Evrópu – vofa kommúnismans. Öll máttarvöld gömlu Evrópu hafa tekið höndum saman um heilaga ofsókn gegn vofu þessari. Páfann og Rússakeisara er þar að finna í sama flokki, Metternich og Guizot, franska vinstri menn og þýzka lögreglunjósnara.“

Tilvísanir

breyta
  1. François Guizot, Histoire parlementaire de France : recueil complet des discours prononcés dans les Chambres de 1819 à 1848 par M. Guizot, tome 4, Paris, Michel Lévy frères, 1864, bls. 68.
  2. Michel Le Séac'h, La Petite phrase. D'où vient-elle ? Comment se propage-t-elle ? Quelle est sa portée réelle ?, Paris, Eyrolles, 2015, bls. 24.
  3. George Fasel. Europe in Upheavel: 1848. Chicago: Rand MacNally. 2. kafli. 1971.


Fyrirrennari:
Jean-de-Dieu Soult
Forsætisráðherra Frakklands
(18. september 184724. febrúar 1848)
Eftirmaður:
Louis-Mathieu Molé