Frúarkirkjan í Antwerpen
Frúarkirkjan í Antwerpen (hollenska: Onze-Lieve-Vrouwekathedraal) er höfuð- og dómkirkja borgarinnar Antwerpen í Belgíu. Kirkjan er hæsta kirkjubygging Benelux-landa og er á heimsminjaskrá UNESCO.
Saga kirkjunnar
breytaByrjað var að reisa Frúarkirkjuna 1352 í gotneskum stíl og var hún að mestu tilbúin 1521. Var þá suðurturninn ókláraður (65 m hár), en norðurturninn 123 metra hár. Var kirkjan þá orðin hæsta kirkjubygging Niðurlanda. 1533 skemmdist kirkjan talsvert í eldi og fóru viðgerðir þegar fram. Hins vegar var öllum framkvæmdum við suðurturninn hætt og er hann því aðeins stubbur enn þann dag í dag. Þetta gefur kirkjunni sérkennnilegt útlit. 1559 var biskupsdæmi stofnað í Antwerpen og varð Frúarkirkjan þá að dómkirkju. En aðeins sjö árum síðar hófust siðaskiptin í borginni. Ruddust þá kalvínistar inn í kirkjuna og skemmdu altöru, listaverk og annað sem minnti á kaþólska trú. 1581 átti sér stað sams konar atburður. Þegar Frakkar hertóku Niðurlönd 1794, rændu þeir dýrgripum úr kirkjunni og skemmdu hana talsvert. Napoleon ætlaði að láta rífa hana, en ekkert varð úr því. Þess í stað notuðu Frakkar hana á tímabili sem hlöðu. 1816, ári eftir orrustuna við Waterloo, var listaverkum kirkjunnar skilað frá París. Hér er aðallega um málverk eftir Peter Paul Rubens að ræða. Miklar viðgerðir fóru fram í kirkjunni 1965-1993. Árið 1999 var kirkjan sett á heimsminjaskrá UNESCO.
Listaverk
breytaÞrjú málverk eftir flæmska málarann Peter Paul Rubens hanga í Frúarkirkjunni. Þau eru:
- Jesús lyft á krossinn
- Jesús tekinn niður af krossinum
- Himnaför Maríu mey
Fyrri málverkin tvö eru altaristöflur í þremur pörtum. Þau lét Napoleon fjarlægja úr kirkjunni og flytja til Parísar. Þeim var skilað til kirkjunnar 1816. Himnaför Maríu mey er einnig altaristafla en aðeins í einum parti. Málverkið er hluti af háaltarinu og leyfði Napoleon því að vera kyrrt.
-
Jesús lyft á krossinn
-
Jesús tekinn niður af krossinum
-
Himnaför Maríu mey
Klukkur
breytaÍ norðurturninum, hærri turninum, eru tvö klukknakerfi. Fyrra kerfið samanstendur af 47 klukkum sem vega alls tæp 28 tonn. Síðara kerfið samanstendur af átta klukkum og eru þær miklu þyngri, enda aðalklukkur kirkjunnar. Sú stærsta heitur Carolus og vegur ein og sér 6,4 tonn. Fyrir tíma rafvæðingarinnar tók það 16 manna átak að sveifla Carolus-klukkunni til hringinga. Sökum plássleysis í turninum er ekki hægt að hringja tveimur stærstu klukkunum samtímis.
Orgel
breytaOrgel Frúarkirkjunnar var smíðað á 19. öld og er með 5.770 hljóðpípur.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Onze-Lieve-Vrouwekathedraal (Antwerpen)“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. september 2012.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Cathedral of Our Lady (Antwerp)“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. september 2012.