Forsetakjör á Íslandi 1988
Forsetakjör á Íslandi 1988 fór fram þann 26. júní árið 1988 og endaði með yfirburðasigri Vigdísar Finnbogadóttur. Forsetakjörið vakti athygli fyrir það að þetta var í fyrsta skipti sem mótframboð kom gegn sitjandi forseta. Árið 1956 hafði Pétur Hoffmann Salómonsson gefið til kynna að hann hygðist bjóða sig fram gegn Ásgeiri Ásgeirssyni, en hann dró það til baka.
Sigrún Þorsteinsdóttir úr Flokki mannsins í Vestmannaeyjum var allþekkt úr ýmsum félagsmálum og hafði m.a. boðið sig fram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum 1983 þegar Þorsteinn Pálsson var kjörinn formaður, en Friðrik Sophusson hlaut yfirburðakosningu í varaformannsembættið. Hún og stuðningsmenn hennar lögðu áherslu á þá hugmynd að forsetaembættið ætti að vera pólitískt virkt og forseti ætti að nýta heimild sína til að synja tilteknum lögum staðfestingar.
Vigdís kaus að halda sig til hlés og reka ekki hefðbundna kosningabaráttu og stuðningsmenn Sigrúnar gagnrýndu hana fyrir að vilja ekki mæta Sigrúnu í kappræðum í sjónvarpi. Fyrstu kannanir sýndu um 98% fylgi forsetans.
Á kjörskrá fyrir kosningarnar voru 174.732 og var kjörsókn 72%.
Úrslit
breytaFrambjóðandi | Atkvæði | % |
---|---|---|
Vigdís Finnbogadóttir | 117.292 | 94,59 |
Sigrún Þorsteinsdóttir | 6.712 | 5,41 |
Samtals | 124.004 | 100,00 |
Gild atkvæði | 124.004 | 98,00 |
Ógild atkvæði | 408 | 0,32 |
Auð atkvæði | 2.123 | 1,68 |
Heildarfjöldi atkvæða | 126.535 | 100,00 |
Kjósendur á kjörskrá | 173.829 | 72,79 |
Heimild: Hagstofa Íslands |
Tengill
breyta
Fyrir: 1980 |
Forsetakjör | Eftir: 1996 |