Fornleifarannsóknir að Skálholti

Fornleifarannsóknir að Skálholti hófust eftir alvöru miðja 20. öld þó voru ýmsir fornfræðingar á 19. öld sem skráðu upplýsingar um fornleifar í Skálholti. Skálholt er einn merkasti sögustaður landsins, samtvinnaður sögu kristni á Íslandi. Kirkja var reist í Skálholti stuttu eftir kristnitöku og sat þar fyrsti biskup Íslands. Skálholt var höfuðstaður landsins í um 750 ár, miðstöð kirkjustjórnar og mikið fræðasetur. Vitað er að í kringum 1200 bjuggu um 120 manns í Skálholti. Þar hefur því staðið þorp húsa af ýmsum stærðum og gerðum sem mynduðu fyrsta þéttbýlið á Íslandi.

Óvíða er mögulegt að rannsaka með uppgreftri húsakynni af jafnfjölbreyttu tagi og frá jafnmörgum tímabilum, enda er í Skálholti að finna minjar frá öllum öldum Íslandssögunnar. Hér gefst því einstakt tækifæri til að afla upplýsinga um þau tímabil sem lítið er fjallað um í rituðum heimildum.[1]

Þar sem biskupssetrið í Skálholti hefur staðið um aldir fer ekki hjá því að vænta megi mikilla fornleifa í jörðu. Lengi hefur verið vitað að merkilegar minjar væru undir sverði á þessum forna höfuðstað landsins.

Þó að raunverulegar fornleifarannsóknir hæfust ekki í Skálholti fyrr en eftir miðja 20. öld komu þar ýmsir fornfræðingar á 19. öld sem skráðu upplýsingar um fornleifar í Skálholti.[a][2]

Fyrstur þeirra var danski fornfræðingurinn Kristian Kålund en hann kom við í Skálholti 1873 og þótti „ekki mikið eftir af dýrð biskupstímans“. Þar var nú ósjáleg trékirkja og bærinn „á engan hátt glæsilegur“. Það eina sem honum þótti enn vera sem áður var hið fagra útsýni. Kålund getur þess að sagnir á staðnum snúist einkum um Þorlák helga og hins vegar um atburði kringum Jón Arason Hólabiskup. Var Kålund sýndur staðurinn hjá kirkjugarðinum þar sem Jón og synir hans voru teknir af lífi og voru „blóðblettirnir“ enn sýnilegir á klöppinni. Einnig hafði til skamms tíma verið laut í kirkjugarðinum þar sem hinir líflátnu höfðu verið jarðaðir uns Norðlendingar grófu þá upp og fluttu til Hóla.[3] [4]

Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi var fyrstur íslenskra fornfræðinga til að kanna minjar í Skálholti. Hann kom þar árið 1893 og skráði sýnileg ummerki, munnmæli og frásagnir staðkunnugra um fornleifar.[b] Brynjúlfur kannaði legsteina í kirkjunni og kirkjugarðinum og skráði niður áletranir á þeim. Hefur honum þótt ástand þessara merku fornleifa dapurlegt og lýkur skýrslu sinni með þessum orðum: „Mjög er áríðandi að vernda hinar fáu fornmenjar sem enn finnast í Skálholti.“[c]

Þá friðlýsti Matthías Þórðarson þrennar minjar í Skálholti: Þorláksbúð, Staupastein og Þorláksbrunn.[d]

Árið 1949 urðu þáttaskil í sögu minjaverndar í Skálholti. Að frumkvæði Sigurbjarnar Einarssonar, sem þá var prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, var stofnað Skálholtsfélag sem hafði það að markmiði að vinna að endurreisn Skálholtsstaðar. Varð félaginu vel ágengt og ráðist var í að reisa nýja kirkju þar sem hinar fyrri kirkjur höfðu áður staðið. Var að þessum framkvæmdum staðið með meiri forsjá og framsýni en öðrum stórframkvæmdum á þessum tíma, því ákveðið var að gera vandaða fornleifarannsókn á eldri kirkjugrunnum áður en þeir yrðu látnir víkja.[e]

1952–1958

breyta

Vegna fyrirhugaðrar kirkjubyggingar var farið í eina umfangsmestu rannsókn á einum minjastað á Íslandi til þess tíma. Hún hófst árið 1952 með uppgreftri á kirkjugrunnum í Skálholti með frumkönnun sem Björn Sigfússon gerði.[f] Gróf hann leitarholur hér og hvar til að finna takmörk eldri kirkjugrunna, einnig gróf hann upp undirganginn að hluta og í svokallaðan Virkishól.[3] Fornleifauppgröfturinn 1954 – 1958 fór fram undir stjórn Kristjáns Eldjárns, en með honum unnu Håkon Christie, Gísli Gestsson og Jón Steffensen.[1] Sú kirkja sem þá stóð í Skálholti hafði verið reist árið 1851. Var hún færð af byggingarstað sínum við upphaf rannsóknanna árið 1954 og loks rifin árið 1956. Eftir að kirkjan hafði verið fjarlægð af grunni sínum hófst fornleifauppgröftur og komu þá í ljós tveir eldri kirkjugrunnar sem staðið höfðu á sitt hvoru tímaskeiðinu.[5]

Auk kirkjugrunna voru grafin upp göng á milli kirkju og bæjarstæðis. Aftur reyndist unnt að greina tvö mismunandi byggingarstig sem tengja mátti við kirkjugrunnana tvo. Norðaustan við kirkjuna var rannsökuð lítil rúst sem gengur undir nafninu Þorláksbúð. Meðal þess tilkomumesta sem upp var grafið var steinkista Páls biskups Jónssonar sem lést árið 1211. Kistan er tilhöggvin úr móbergi og vel varðveitt, utan þess að lokið er þríbrotið. Í kistunni var, auk beina Páls, húnn af fagurlega útskornum bagli.[1]

Árið 1955 var grafinn upp grunnur að byggingu norðan við stöpulinn og lokið við uppgröft á Þorláksbúð. Grafið var í „beinakjallara“ og uppgreftri haldið áfram í undirganginum. Voru og grafnar leitarholur hér og þar, aðallega norðan við kirkjustæðið. Þá var umhverfi staðarins snyrt, veggjasteinar í Þorláksbúð voru réttir og grasþökur lagðar í gólfið, Skólavarðan var löguð sem og Þorlákssæti. Árið 1958 var lokið rannsókn á undirganginum og eldra byggingarstig hans kannað. Var hann síðan endurbyggður. Þá var einnig ýtt ofan af bæjarhólnum og hann sléttaður. Veggjarbrotum og bæjarleifum frá 19. og 20. öld var ýtt burtu og suður af hólnum en Kristján Eldjárn taldi sýnt að enn væru miklar mannvistarleifar í jörðu sunnan og suðvestan við kirkjuna og kirkjugarðinn.[3]

1983-1988

breyta

Ef frá er skilið sumarið 1987, fóru fram fornleifarannsóknir, á árunum 1983 – 1988 á hinu gamla bæjarstæði Skálholtsstaðar. Þær fólust í því að grafnir voru könnunarskurðir á völdum stöðum til þess að kanna hvar mannvirkja væri að vænta og hvort hægt væri að nota gamlar teikningar og uppdrætti af staðnum til þess að staðsetja einstök bæjarhús á bæjarstæðinu. Til grundvallar var stuðst við vel þekkta uppdrætti[6] sem sýna húsaskipan árið 1784, sama ár og bærinn hrundi til grunna í miklum jarðskjálfta. Annað markmið var einnig að kanna hvort eitthvað væri eftir af bænum undir yfirborði, sem sléttað hafði verið yfir með jarðýtu á 6. áratug 20. aldar. Þá var rætt um að ef niðurstöður rannsóknanna gæfu tilefni til, mætti nýta þær til þess að hlaða lága veggi á yfirborði jarðar, sem sýndu legu 18. aldar bæjarins samkvæmt áðurnefndum teikningum og niðurstöðum fornleifarannsóknanna. Þjóðminjasafnið annaðist rannsóknirnar sem unnar voru fyrir Skálholtsstað sem greiddi kostnað við verkið.

Guðmundur Ólafsson stjórnaði rannsókninni öll árin. Með honum störfuðu, um lengri eða skemmri tíma, Adolf Friðriksson, Jens Pétur Jóhannsson, Kevin P. Smith, Logi Sigmundsson, Martin Ringmar, Unnur Dís Skaptadóttir og Þorkell Grímsson.[7]

Á seinni hluta 20. aldar hefur Hörður Ágústsson manna mest sinnt rannsóknum á sögu Skálholts. Hann vann við úrvinnslu Skálholtsrannsókna frá árunum 1954-1958 og sá um frágang þeirra til útgáfu árið 1988[8]. Hann hefur safnað heimildum um staðinn, tekið túlkun á gerð kirknanna til rækilegrar endurskoðunar, sett fram tilgátur um útlit þeirra og smíð og samið vandaðar skrár um áhöld og skrúða frá Skálholti. Hafa rannsóknir Harðar á heimildum um húsakost stólsins m.eðal annars leitt í ljós að húsaskipan hefur í megindráttum verið hin sama frá miðri 16. öld og til loka 18. aldar.[3]

Árið 1999 hófst nýr kafli í rannsóknum á Skálholti en þá gerði Timothy Horsley frá Háskólanum í Bradford viðnámsmælingar í Skálholti. Niðurstöður þeirra gefa mjög skýra mynd af þeim mannvirkjaleifum sem er að finna undir sverði suðvestan við kirkjuna. Þar er nú slétt grasflöt en undir henni eru greinilega leifar bæjarins sem féll í jarðskjálftanum 1784 og undir þeim má vænta enn eldri leifa.[3]

2002-2007

breyta

Árið 2001 stofnaði Alþingi Kristnihátíðarsjóð veitti hann meðal annars fé til nýrra fornleifarannsókna í Skálholti, umfangsmikils uppgraftar 2002-2007, sem var samstarfsverkefni Skálholtsstaðar, Fornleifastofnunar Íslands, Þjóðminjasafns Íslands, Háskólans í Árósum, Háskólans í Stirling og Háskólans í Bradford.[g] Verkefnisstjórn skipuðu Orri Vésteinsson, Mjöll Snæsdóttir og Gavin Lucas, fornleifafræðingar hjá Fornleifastofnun. [1]

Rannsóknin beindist einkum að kjarna staðarhúsa eins og þau voru á 17. og 18. öld, híbýlum biskupa og skylduliðs þeirra, bókaskemmu og skrifstofum, göngum og eldhúsi auk skólabygginganna. Sjálf húsasamstæðan á bæjarstæðinu er þó stærri og í þessu verkefni urðu útundan ýmis útihús, skemmur og skepnuhús, prenthús og margt fleira.[h] Segja má að flókin og margbrotin saga staðarhúsanna í Skálholti sé meðal þess áhugaverðasta í þessari rannsókn. Fornleifarannsóknin staðfestir í meginatriðum að hinir varðveittu uppdrættir eru að miklu leyti traustir en þó takmarka þeir að sumu leyti sýn okkar. Hvorki uppdrættirnir né varðveittar úttektarlýsingar sýna allar þær fjölmörgu, smáu og stóru breytingar sem orðið hafa á staðarhúsunum. Ýmiss konar breytingar á húsum hafa verið ákaflega algengar.

Merkilegt var að sjá vaxandi skiptingu milli vestari og eystri hluta innhúsanna. Á 17. öld virðist hafa verið auðvelt að komast á milli skóla og biskupsherbergja, bókaskemmu og annarra herbergja, margir gangar tengdu þessar vistarverur saman. Á 18. öld virðist þessum göngum smátt og smátt hafa verið lokað. Ef til vill er það breytt samband biskups og skóla sem setur mark sitt á húsaskipan. Við túlkun Skálholtsminja reynir á að lesa saman mismunandi heimildir, uppgrafnar rústir, fundna gripi, skrifaðar úttektir og uppdrætti. Uppdrættirnir tveir sem varðveittir eru frá 18. öld koma að miklu gagni við að átta sig á notkun húsa. Þó verður að hafa í huga að notkun húsa getur breyst og uppdrættirnir lýsa aðeins ákveðnum tíma. Það er að sumu leyti annar vandi í því falinn að túlka minjar sem aðrar heimildir eru til um en sá vandi sem það getur verið að túlka uppgrafnar minjar eingöngu. Reyndar er það svo að hver sem túlkar minjar styðst alltaf við eitthvað fleira en minjar þær sem grafnar eru úr jörðu. Ekkert gerist í tómarúmi og slíkar minjar eru alltaf bornar saman við aðrar minjar[2][óvirkur tengill].

Fornleifavernd ríkisins veitti leyfi til framhaldsrannsókna á biskupssetri. Ábyrgðaraðili er Mjöll Snæsdóttir, Fornleifastofnun Íslands ses.

Fornleifavernd ríkisins veittileyfi til minniháttar rannsókna vegna frágangs minjasvæðis. Ábyrgðaraðili er Mjöll Snæsdóttir, Fornleifastofnun Íslands ses.

Fornleifavernd ríkisins veitti leyfi vegna frágangs á minjasvæði og minniháttar rannsókna eftir þörfum. Ábyrgðaraðili er Mjöll Snæsdóttir, Fornleifastofnun Íslands ses.

Rúst Þorláksbúðar,sem hafði verið rannsökuð að hluta árið 1954, undir stjórn Håkon Christie, var nú rannsökuð af starfsmönnum Fornleifastofnunar Íslands ses.. Þar kom í ljós að þarna voru eldri byggingarskeið undir yngstu rústinni auk fornra grafa. Mjöll Snæsdóttir 2009: Könnunarskurðir í svonefnda Þorláksbúð í Skálholti.Skýrsla Geymt 8 febrúar 2007 í Wayback Machine Fornleifastofnunar Íslands FS435-09041.

Fornleifavernd ríkisins veitti leyfi til kennsluuppgraftar. Ábyrgðaraðili er Gavin Lucas, Háskóla Íslands. Árið 2011 var hafin endurbygging[3] Þorláksbúðar, 30 fermetra tilgátuhús úr torfi, á þeim stað sem hún upprunalega stóð. Bygging Þorláksbúðar hefur verið gagnrýnd af mörgum og ekki allir sammála um ágæti hennar.

Gavin Lucas, Fornleifastofnun Íslands ses., fékk úthlutaðar Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine 2.000.000 kr. úr fornleifasjóði til úrvinnslu fornleifarannsókna í Skálholti.

Neðanmálsgreinar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 Fornleifastofnun Íslands ses. „Skálholt“. Saga staðarins. Sótt 22. febrúar 2003.
  2. Mjöll Snæsdóttir, Gavin Lucas og Orri Vésteinsson (2006). Saga Biskupsstólanna. Fornleifar og rannsóknir í Skálholti. Reykjavík: Bókaútgáfan Hólar.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 Orri Vésteinsson. „Skálholt - höfuðstaður Íslands í 700 ár“, Morgunblaðið, skoðað þann 22.febrúar 2013.
  4. Kålund, P.C. Kristian (Haraldur Matthíasson þýddi) (1984). Íslenskir sögustaðir I.: Sunnlendingafjórðungur. Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur. bls. 121.
  5. Hildigunnur Skúladóttir. „Helgisiðir úr kaþólskri trú. Varðveittir altarissteinar á Íslandi“ (PDF). Ritgerð til B.A.prófs: Háskóli Íslands, Hugvísindadeild. Sótt 22.febrúar 2013.
  6. Fornleifastofnun Íslands ses. „Skálholt“. Kort frá 1784. Sótt 22.febrúar 2013.
  7. Guðmundur Ólafsson. „Skálholt. Rannsókn á bæjarstæði 1983–1988“ (PDF). Sótt 22.febrúar 2013.
  8. Kristján Eldjárn,Håkon Christie og Jón Steffensen (1988). Skálholt: Fornleifarannsóknir 1954 – 1958. Reykjavík: Lögberg.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta