Fjörugrös (fræðiheiti: Chondrus crispus) er rauðþörungur sem vex víða í grýttum fjörum við strendur Atlantshafsins. Hann vex meðal annars við Bretlandseyjar, Eystrasalt, Færeyjar og Kanada. Fjörugrös vaxa á Íslandi við strendur sunnan og suðvestan lands. Fjörugrös kallast á ensku Irish moss eða írskur mosi. Fjörugrös hafa öldum saman verið nýtt til manneldis og ýmsar afurðir unnar úr þeim. Efnið karragenan (e. carrageen) er unnið úr fjörugrösum en það er m.a. notað sem hleypiefni í mjólkurdrykki og til að gera öl tærara. Karragenan er E-efni með númerið E407.

Fjörugrös
Fjörugrös eru rauð á litinn
Fjörugrös eru rauð á litinn
Vísindaleg flokkun
Fylking: Rauðþörungar (Rhodophyta)
Flokkur: Florideophyceae
Ættbálkur: Gigartinales
Ætt: Gigartinaceae
Ættkvísl: Chondrus
Tegund:
C. crispus

Tvínefni
Chondrus crispus
Stackh.

Fjörugrös innihalda mikið af næringarefnum. Þau innihalda mikið af prótíni, A og B1 vítamíni og joði og efni eins og kalín, magnesín, járn og fosfór. Fjörugrös hafa frá landnámi verið nýtt á Íslandi og þá oftast notuð í graut. Þau voru þá lögð í bleyti og söxuð og soðin í mjólk með mjöli eða byggi.

Fjörugrös eru rauð á lit eða jafnvel með bláum blæ en fáir þörungar eru þannig á litinn nema purpurahimna og sjóarkræða. Purpurahimnan er þó auðþekkt á því, að öll plantan er ein örþunn himna, flöt og ógreinótt og legglaus. Fjörugrös og sjóarkræða hafa margkvíslóttan líkama. Sjóarkræðan líkist fjörugrösum en greina má þessar tegundir í sundur á því að einskonar renna er öðrum megin á sjóarkræðu en fjörugrös eru alveg flöt.

Heimildir breyta

  • „Vex írskur mosi við strendur Íslands_“. Vísindavefurinn.
  • Fjörugrös (Fjaran og hafið, Námsgagnastofnun og Hafrannsóknastofnun)
  • Fjörugrös og hrossaþari – Náttúrufræðingurinn, 1. Tölublað (01.04.1936), bls. 22-29
   Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.