Filippus 1. Frakkakonungur

Filippus 1. (23. maí 105229. júlí 1108), kallaður hinn ástleitni (franska: Philippe l' Amoureux) var konungur Frakklands frá 1060 til dauðadags, eða í 48 ár, en fyrstu sex árin stýrði móðir hans ríkinu í félagi við Baldvin greifa af Flæmingjalandi, sem kvæntur var Adelu föðursystur hans.

Filippus 1. Mynd úr handriti frá 12. öld.

Filippus var sonur Hinriks 1. Frakkakonungs og konu hans, Önnu af Kænugarði, og var það hún sem valdi honum nafn en Filippus var nær óþekkt nafn í Vestur-Evrópu fyrir hans dag. Hann var sjö ára þegar faðir hans dó og tók sjálfur við ríkisstjórn 1066, þegar hann var fjórtán ára.

Stór hluti hinna mörgu ríkisstjórnarára Filippusar fór í að bæla niður uppreisnir lénsherra og reyna að efla konungsvaldið. Árið 1077 samdi hann frið við Vilhjálm sigurvegara, sem hætti þá tilraunum til að leggja Bretagne undir sig. Filippus jók líka við krúnulendurnar með því að taka Vexin undir sig 1082 og Bourges árið 1100.

Filippus giftist Bertu, dóttur Floris 1., greifa af Hollandi, árið 1072 og átti með henni soninn Loðvík og dótturina Konstönsu. En síðar varð hann ástfanginn af Bertrade de Montfort, eiginkonu Fulks 4. greifa af Anjou, rak Bertu frá sér á þeirri forsendu að hún væri of feit og giftist Bertrade 15. maí 1092. Fyrir það var hann bannfærður af erkibiskupinum af Lyon 1094 og síðan af Úrban páfa II árið 1095. Bannfæringunni var aflétt nokkrum sinnum við það að Filippus hét að segja skilið við Bertrade en hann tók alltaf saman við hana aftur og á endanum gáfust kirkjunnar menn upp og sættu sig við hjónabandið. Filippus og Bertrade áttu tvo syni og eina dóttur.

Vegna bannfæringarinnar og deilnanna við Úrban páfa tók Filippus ekki beinan þátt í fyrstu krossferðinni en bróðir hans, Húgó af Vermandois, fór aftur á móti fyrir sveit franskra krossferðariddara.

Í samtímaheimild segir að hann hafi mörg síðustu ríkisstjórnarár sín verið svo heltekinn af ást á Bertrade að hann hafi varla sinnt nokkru öðru og misst allan áhuga á stjórn ríkisins.

Heimild breyta


Fyrirrennari:
Hinrik 1.
Konungur Frakklands
(10601108)
Eftirmaður:
Loðvík 6.