Hrynjandi er taktur sem þarf að gæta að til þess að ljóð fylgi bragfræðireglum. Hrynjandi er vanalega talin í taktbilum sem kallast kveður sem geta verið „rísandi“ eða „hnígandi“ eftir því hvort áhersluatkvæði er fyrst eða síðast í viðkomandi kveðu. Fyrsta kveða í braglínu er kölluð hákveða, og svo skiptast á hákveður og lágkveður. Stundum kemur áherslulaus forliður á undan fyrstu kveðu. Kveður kallast tvíliður eða þríliður eftir atkvæðafjölda. Bragarháttur kveður á um hvernig hrynjandin á að vera og hvernig stuðlar og höfuðstafir raðast á kveður, en ávallt gildir að ekki má vera of langt á milli ljóðstafa, stuðlarnir mega ekki vera báðir í lágkveðu (í ferskeyttum háttum verður annar þeirra að vera í síðustu hákveðu) og höfuðstafur er alltaf í fyrstu hákveðu.

Dæmi um vísu með hnígandi tvíliðum með einföldum forlið í þrem fyrstu línum (áherslusérhljóði feitletraður):

Þeir eltu hann á átta hófahreinum

og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar,

en Skúli gamli sat á Sörla einum

svo að heldur þótti gott til veiðar.

(Grímur Thomsen: „Skúlaskeið“)

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.