Fáni Sýrlands
Fáni Sýrlands er umdeildur vegna sýrlensku borgarastyrjaldarinnar. Opinber fáni Sýrlandsstjórnar er fáni Sameinaða arabíska lýðveldisins með rauðri, hvítri og svartri þverrönd og tveimur grænum stjörnum sem upphaflega stóðu fyrir Sýrland og Egyptaland. Bráðabirgðastjórn Sýrlands sem er mynduð úr Þjóðarbandalagi sýrlenskra byltingar- og stjórnarandstöðuafla og nýtur víðtækrar alþjóðlegrar viðurkenningar, hefur tekið upp eldri fána með grænni, hvítri og svartri þverrönd og þremur rauðum stjörnum sem upphaflega stóðu fyrir þrjú umdæmi Sýrlands, Aleppó, Damaskus og Deir ez-Zor. Báðir fánarnir eru samsettir úr fjórum arabískum litum: rauðum (fyrir Khawarij-múslima), svörtum (fyrir Múhameð spámann og Rasída), hvítum (fyrir Úmajada) og grænum (fyrir Fatímída).