Erlendur Ólafsson sterki

Erlendur Ólafsson sterki (d. 1312) var íslenskur lögmaður á 13. öld. Hann bjó á Ferjubakka í Borgarfirði.

Faðir Erlendar var Ólafur tottur en ætt hans er óþekkt. Móðir Erlendar var Valgerður Flosadóttir frá Baugsstöðum og er ætt hennar víða rakin í Hauksbók Landnámabókar, sem Haukur sonur Erlendar lét skrifa, en ekkert minnst á föðurættina og föðurnafn Erlendar raunar aldrei nefnt þar, heldur er hann ýmist kallaður Erlendur sterki eða Erlendur lögmaður (Árni biskup kallar hann Erlend digra.) Sumir hafa talið þetta benda til þess að Ólafur hafi verið norskur en einnig má vera að Haukur hafi einfaldlega ekki getað rakið ættir hans til landnámsmanna.

Erlendar er fyrst getið þegar hann skrifar undir bréf til konungs ásamt öðrum höfðingjum 1275. Hann var mikið í ferðalögum og virðist hafa farið átta sinnum til Noregs á árunum 1282-1305 en á þeim árum tók utanlandsferð aldrei minna en árið og oft tvö eða þrjú. Hann kom til landsins 1283 með lögsögn norðan lands og vestan og tók við af Sturlu Þórðarsyni. Hann var einn af andstæðingum Árna biskups í staðamálum og var fyrir leikmönnum eftir að Hrafn Oddsson dó en var ekki jafnklókur og Hrafn svo að biskup hafði á endanum betur. Hann virðist hafa verið ákafamaður og átti oft í deilum. Árið 1389 lét hann af lögmannsembættinu en hafði eftir það sýsluvöld og gegndi ýmsum erindum fyrir konung.

Fyrri kona hans hét Jórunn og voru synir þeirra Jón bóndi á Ferjubakka og Haukur Erlendsson lögmaður. Seinni kona hans var Járngerður Þórðardóttir, sonardóttir Böðvars Þórðarsonar í .

Heimildir breyta


Fyrirrennari:
Sturla Þórðarson
Lögmaður norðan og vestan
(12831289)
Eftirmaður:
Þorlákur Narfason