Árni Þorláksson, oftast nefndur Staða-Árni (123717. apríl 1298) var biskup í Skálholti frá 1269. Helsta heimildin um ævi hans og störf er Árna saga biskups.

Árni var sonur Þorláks Guðmundssonar gríss og Halldóru Ormsdóttur. Hann var hjá Brandi Jónssyni meðan hann var ábóti í Þykkvabæ. Þegar Brandur var kosinn biskup á Hólum fór Árni með honum í vígsluferðina til Noregs og komst þá í kynni við Magnús konung lagabæti og fór vel á með þeim síðan. Hann fór svo með Brandi til Hóla. Þá hafði hann aðeins hlotið djáknavígslu.

Þegar Brandur dó eftir aðeins eitt ár á biskupsstóli vígði Sigvarður Skálholtsbiskup Árna til prests og fékk honum staðarforráð á Hólum þar til Jörundur biskup tók við embættinu 1267. Jörundur sendi Árna suður í Skálholt til halds og trausts Sigvarði biskupi, sem orðinn var aldraður, og þegar Sigvarður dó 1268 var Árni kosinn biskup og vígður í Niðarósi 1269, rúmlega þrítugur að aldri.

Hann gegndi embættinu í nærri 30 ár og andaðist í Björgvin. Árni var mikil skörungur í kirkjustjórn og gjörbreytti mörgu þar en hann var ekki fjáraflamaður að sama skapi og auðgaði ekki stólinn að jörðum á sama hátt og Jörundur biskup Hólastól.

Kristniréttur og staðamál

breyta

Árni setti nýjan kristnirétt 1275 sem við hann er kenndur og krafðist yfirráða kirkjunnar yfir kirkjustöðum (staðamál síðari). Stóðu miklar deilur um þau mál næstu árin, sem lauk með því að ákveðið var að biskup skyldi hafa yfirráð yfir þeim stöðum sem kirkjan ætti hálfa eða meira. Auðugustu kirkjustaðirnir urðu svokölluð erkibiskupslén. Má því segja að Árni hafi unnið nærri fullan sigur í þeim átökum sem Þorlákur helgi hóf gegn Jóni Loftssyni, langafa Árna.

Helsti stuðningsmaður Árna í baráttunni við höfðingjaveldið var Runólfur Sigmundsson ábóti í Þykkvabæjarklaustri en þeir höfðu báðir verið nemendur Brands Jónssonar í klaustrinu. Harðasti andstæðingur biskups var aftur á móti Hrafn Oddsson hirðstjóri en hann lést 1289. Þá tók Þorvarður Þórarinsson við en var Árna biskupi ekki jafnerfiður viðfangs og Hrafn hafði verið og fór svo að málum var skotið í dóm konungs.


Fyrirrennari:
Sigvarður Þéttmarsson
Skálholtsbiskup
(12691298)
Eftirmaður:
Árni Helgason