Enska knattspyrnudeildin
Enska knattspyrnudeildin (enska: Football League) er knattspyrnudeild félagsliða í Englandi og Wales. Hún var stofnuð árið 1888 og er því elsta knattspyrnudeild heims. Deildin var efsta deild enskrar knattspyrnu frá stofnun til ársins 1992 þegar 22 efstu liðin klufu sig úr henni og stofnuðu Ensku úrvalsdeildina. Ástæða þess var meðal annars aukinn kostnaður í kjölfar hertra reglna um öryggi leikvanga og aðgerða til að stöðva ofbeldi á knattspyrnuleikjum.
Frá 1995 hefur deildin skipst í þrennt: meistaradeild, fyrstu deild og aðra deild. Efstu liðin í meistaradeildinni skipta um sæti við neðstu liðin í úrvalsdeildinni og neðstu liðin í annarri deild skipta um sæti við efstu liðin í Enska knattspyrnuráðinu.
Frumkvæðið að stofnun deildarinnar kom frá formanni Aston Villa, William McGregor, þremur árum eftir að Enska knattspyrnusambandið heimilaði atvinnumennsku í knattspyrnu. Hugsanlega byggðist hugmynd hans á nýrri deild í amerískum háskólafótbolta sem enskir fjölmiðlar greindu frá árið áður.