Jonna Louis-Jensen (21. október 1936) var prófessor í íslensku máli og bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla og um tíma forstöðumaður Árnasafns (Den Arnamagnæanske Samling), sem er rannsóknarstofnun í handritafræðum við sama háskóla.

Ævi breyta

Jonna Louis-Jensen ólst upp í Kaupmannahöfn, en var á unglingsárum í Ósló og tók þar stúdentspróf 1955. Vegna áhuga síns á skyldleika norrænna mála fór hún til Íslands og lærði íslensku á heimili Páls Ísólfssonar tónskálds. Haustið 1956 hóf hún nám í norrænni textafræði hjá Jóni Helgasyni prófessor, og fór snemma að vinna með honum í Árnasafni í Kaupmannahöfn. Varð fastur starfsmaður þar 1965. Hún varð MA í norrænni textafræði 1964.

Hún gaf út tvær gerðir Trójumanna sögu, 1963 og 1981. Einnig hefur hún fengist mikið við rannsóknir á konungasögum, einkum þeirri gerð sem kölluð er Hulda-Hrokkinskinna, og fjallaði doktorsritgerð hennar um það efni: Kongesagastudier. Kompilationen Hulda-Hrokkinskinna, prentuð 1977. Árið 1968 sá hún um ljósprentaða útgáfu handritsins Huldu, AM 66 fol. (Early Icelandic Manuscripts in Facsimile VIII). Hún hefur birt fjölda greina um rannsóknir sínar.

Þegar Jón Helgason fór á eftirlaun 1972, tók Jonna við af honum sem prófessor í íslensku máli og bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla. Var hún fyrsti Daninn sem gegndi því embætti og einnig fyrsta konan. Þegar Árnanefnd (Den Arnamagnæanske Kommission) var endurskipulögð 1975, var Jonna skipuð í nefndina, ritari hennar frá 1976. Um það leyti fluttist Árnasafn í nýtt húsnæði hugvísindadeildar háskólans við Njálsgötu (Njalsgade) á Amákri (Amager). Hófst þá lokaþáttur handritamálsins með afhendingu handritanna til Íslands, sem lokið var 1997.

Jonna var aðalritstjóri Bibliotheca Arnamagnæana og Editiones Arnamagnæanæ á árunum 1976–1988.

Hún var gestaprófessor í íslensku við Fróðskaparsetur Færeyja 1988–1990, en að öðru leyti hefur starfsferill hennar verið hjá Árnastofnun í Kaupmannahöfn.

Þegar Jonna varð sjötug, 2006, kom út afmælisritið, Con Amore, með úrvali af greinum hennar og ritaskrá.

Áður höfðu komið út tvö afmælisrit henni til heiðurs, með greinum annarra fræðimanna:

  • Equus Troianus, sive Trójuhestur, tygjaður Jonnu Louis-Jensen, 21. október 1986, Rvík 1986.
  • Frejas Psalter. En psalter i 40 afdelinger til brug for Jonna Louis-Jensen, København 1996. (2. útgáfa 1997). – Fyrsta útgáfa var í einu eintaki, sem fært var afmælisbarninu.

Jonna Louis-Jensen fékk íslensku fálkaorðuna 1991. Hún var tekin í Vísindafélag Íslendinga 1984, og í Vísindafélagið danska (Videnskabernes Selskab) 1997. Hún varð heiðursdoktor við Háskóla Íslands 2001.

Tenglar breyta

Heimildir breyta

  • Jonna Louis-Jensen: Con Amore, en artikelsamling udgivet på 70-årsdagen den 21. oktober 2006. København.