Ellen MacArthur

Ellen MacArthur (f. 8. júlí 1976) er ensk siglingakona frá þorpinu Whatstandwell í Derbyshire. Hún er þekktust fyrir að hafa sett met í siglingu einsömul umhverfis jörðina 7. febrúar 2005 á 71 degi, 14 tímum, 18 mínútum og 33 sekúndum á 75 feta þríbytnunni B&Q/Castorama. Hún bætti þannig fyrra met Francis Joyon frá árinu áður um einn dag og átta og hálfan tíma. Joyon sló síðan met hennar aftur árið 2008.

Ellen MacArthur árið 2007.

Ellen á núverandi heimsmet í siglingu einsömul yfir Atlantshafið frá austri til vesturs á kjölbát frá því hún sigldi Kingfisher frá Plymouth til Newport á Rhode Island á 14 dögum, 23 tímum og 11 mínútum. Hún á líka núverandi kvennamet í siglingu yfir Atlantshafið frá vestri til austurs með því að sigla B&Q/Castorama frá Ambrose Light í New York-flóa til Lizard Point í Cornwall á 7 dögum, 3 tímum og 50 mínútum. Hún er sú kona sem hefur náð bestum árangri í Vendée Globe-keppninni þar sem hún hafnaði í öðru sæti árið 2001.

Árið 2009 tilkynnti hún að hún væri hætt þátttöku í siglingakeppnum. Árið eftir stofnaði hún góðgerðastofnunina Ellen MacArthur Foundation sem vinnur að þróun hringhagkerfis.