Þríbytna
Þríbytna er skip með skrokk í miðju og tvö flotholt á útleggjurum sem styðja við hann sitt hvorum megin. Hönnunin er byggð á pólýnesískum kanóum. Miðað við hefðbundin seglskip ristir þríbytnan grynnra, ryður minna frá sér og getur borið stærri segl vegna aukins stöðugleika. Algengara er að þríbytnur stingist á endann en að þær fari á hliðina. Þríbytna getur því siglt í grynnra vatni og meiri vindi en hefðbundin skúta. Á móti kemur að þríbytnur eru óþjálli í vendingum.