Vendée Globe er einmenningssiglingakeppni umhverfis jörðina án hlés og án aðstoðar. Keppnin var stofnuð af franska siglingamanninum Philippe Jeantot árið 1989 og hefur verið haldin á fjögurra ára fresti frá árinu 1992. Keppnin er af mörgum talin erfiðasta siglingakeppni heims. Tveir þekktir siglingamenn týndu lífinu í keppnunum 1992 og 1996 sem leiddi til þess að strangari öryggisreglur voru settar fyrir keppnina árið 2000. Síðustu ár hafa um tuttugu skútur hafið keppni en tæplega helmingur hættir af ýmsum ástæðum.

Siglingaleiðin í Vendée Globe.

Í keppninni er einungis heimilt að leggja að landi ef búnaður skaddast eða bilar, og siglingamaðurinn verður að sjá sjálfur um viðgerðir. Skúturnar þurfa að uppfylla skilyrði Open 60-flokksins sem gefa töluvert svigrúm fyrir ólíka hönnun en tilgreina t.d. hámarkslengd (60 fet) og gera ýmsar kröfur um stöðugleika og öryggi.

Rásmark og endamark eru bæði í sjávarþorpinu Les Sables-d'Olonne í Vendée-umdæmi í Frakklandi. Siglingaleiðin fylgir klipparaleiðinni suður AtlantshafiðGóðrarvonarhöfða og síðan réttsælis umhverfis Suðurskautslandið með Leeuwin-höfða og Hornhöfða á bakborða. Keppnin stendur venjulega frá nóvember fram í febrúar árið eftir og miðast við að keppendur sigli um Suður-Kyrrahaf að sumarlagi. Hraðametið á sigurvegari síðustu keppni, Frakkinn François Gabart sem fór leiðina á 78 dögum og rúmum 2 klukkustundum.

Þarsíðasta keppni var ræst 9. nóvember 2008. Þrjátíu keppendur hófu keppni en nítján heltust úr lestinni á leiðinni af ýmsum ástæðum. Sigurvegari keppninnar, Michel Desjoyeaux, kom í land 1. febrúar 2009. Næsta keppni hófst 9. nóvember 2012 með tuttugu þátttakendum. Sigurvegarinn, François Gabart, kom í land á skútu sinni Macif 27. janúar 2013.

Tenglar breyta