Eiríkur Magnússon

Eiríkur Magnússon (1. febrúar 183324. janúar 1913) var lengst af ævi sinnar bókavörður í Cambridge, Englandi, og mikilvirkur þýðandi á fornsögum Íslendinga ásamt William Morris. Hann var meðal stofnenda The Viking Society í London.

Eiríkur kynntist George Ernest John Powell, sem var af velskri landaðalsætt, um borð í póstskipinu Díönu árið 1862. Eiríkur var að flytja til Englands en Powell var á heimleið eftir Íslandsferð. Tókst með þeim góð vinátta og hófu þeir samvinnu við þýðingar úr íslensku á ensku. Í Sögu Eiríks Magnússonar eftir Stefán Einarsson segir að Powell hafi að frumkvæði Eiríks greitt Jóni Sigurðssyni 600 pund árið 1866 til að rita sögu Íslands í sex bindum. Átta árum síðar óskaði Powell eftir greinargerð um framgang verksins en að lokum féllst hann á að ritlaunin væru gjöf til Jóns og kom verkið því aldrei út. Í endurminningum Indriða Einarssonar um Jón Sigurðsson í Skírni 1911 segir að vegna fjárhagaðstæðna Jóns á tímabilinu 1865-1868 hafi Eiríkur Magnússon haft forgöngu um að selja eða veðsetja bókasafn hans. Veðsetningarskjöl og skrá yfir bækur hafi verið send til Englands en Powell hafi sent þau til baka litlu síðar þar sem peningarnir væru greiðsla fyrir ritun sögu Íslands.[1]

Eiríkur var frumkvöðull í sauðasölu til Englands og árið 1866 sigldi hann til Íslands með John Swan, fjárkaupmanni í Leith. Vegna óveðurs á leið heim og lélegs aðbúnaðar drapst um helmingur fjárins[2]. Eiríkur stóð ekki framar í slíkum viðskiptum en var næstu ár í ráðum með Þorláki Ó. Johnson um ýmsa verslun milli Íslands og Bretlands. Síðustu afskipti Eiríks af sauðasölumálum voru 1889 þegar hann tók við bænaskrá Pöntunarfélags Fljótsdalshéraðs til enska þingsins og þýddi á ensku. Þingið hafði þá samþykkt lög sem bönnuðu innflutning sauðfjár frá öðrum löndum. Gerðist Eiríkur erindreki íslenskra bænda í málinu í samstarfi við T. Bille, sendiherra Dana í London.

Árin 1875 og 1882 safnaði Eiríkur, í félagi við William Morris og aðra samstarfsmenn sína, miklu fé í Englandi til aðstoðar bágstöddum á Íslandi. Tilefnið 1875 var Dyngjufjallagos og öskufall á Austurlandi og safnaði Eiríkur þá 1.857 pundum. Var honum falið að kaupa 150 tonn af korni og flytja það til Íslands. Að því loknu voru 340 pund eftir af samskotafénu og veitti Eiríkur því þá til styrktar bændum á Jökuldal sem höfðu flosnað upp af jörðum sínum. Var þessu fé að endingu varið til stofnunar búnaðarskóla á Austurlandi. Austfirðinar þökkuðu Eiríki hjálpina með silfurkeri sem nú er geymt á Þjóminjasafninu. Árin 1880-1882 voru harðindakafli á Íslandi og safnaði Eiríkur þá 2.200 pundum og var sigldi til Íslands með hey, matvæli og korn til gripafóðurs. Í kjölfarið fylgdi hörð deila um það hvort Íslendingar hefðu þurft á aðstoðinni að halda. Engu að síður gerði stjórnin Eirík að riddara af dannbrog þann 12. janúar 1883 fyrir framgöngu sína í málinu.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta
   Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  1. „Skírnir - Megintexti (17.06.1911) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 10. janúar 2021.
  2. „Morgunblaðið - 106. tölublað og Íþróttablað (18.05.1982) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 10. janúar 2021.