Egill Þórhallason

Egill Þórhallason (11. september 1734 - 16. janúar 1789) var íslenskur prestur og síðar prófastur á Grænlandi. Er hann talinn meðal merkustu trúboða Grænlands. Vísitasíubækur Egils frá Grænlandi eru merkilegar heimildir um Grænland og Grænlendinga 18. aldar.

Hvalveiðar Grænlendinga á 18. öld. Mynd eftir Hans Egede.

Æviágrip breyta

Egill var sonur Þórhalla Magnússonar prests á Borg á Mýrum 1716-1746 og síðari konu hans, Bóthildar Egilsdóttur. Séra Þórhalli þótti góður kennari og kenndi ýmsum undir skóla, meðal annars Eggert Ólafssyni. Hann dó þegar Egill var 12 ára og tóku þá frændur Egils, bræðurnir Finnur Jónsson prestur í Reykholti og síðar biskup og Vigfús Jónsson prestur í Hítardal, uppeldi hans að sér. Egill fór svo í Skálholtsskóla en gerðist síðan djákni í Hítardal hjá Vigfúsi frænda sínum og einnig er talið hugsanlegt að hann hafi aðstoðað Finn við ritun kirkjusögu hans. Hann fór svo til Reykjavíkur og varð skrifari við Innréttingarnar og síðar aðstoðarmaður Ólafs Stefánssonar varalögmanns og Magnúsar Gíslasonar amtmanns.

Vorið 1759 hélt Egill til náms við Hafnarháskóla. Hann lauk kandídatsprófi í guðfræði þaðan 1765. Hann fékk síðan vinnu á Árnasafni og þýddi meðal annars Jónsbók á dönsku. Á Kaupmannahafnarárunum var Egill í Bændasonaflokknum svonefnda, með Eggert Ólafssyni og bræðrum hans, Bjarna Pálssyni og fleiri Íslendingum.

Þann 3. júní 1763 var Egill tekinn í grænlenska trúboðsskólann í Kaupmannahöfn og stundaði nám þar næstu tvö árin, en skólastjóri skólans var Poul, sonur Hans Egede Grænlandstrúboða. Á skólaárunum skrifaði Egill séra Jóni Bjarnasyni á Ballará, sem var þekktur Grænlandsáhugamaður og hafði meðal annars lært grænlensku á eigin spýtur, og reyndi að fá hann til að flytja með sér til Grænlands. Séra Jón var mjög áhugasamur en af þessu var þó ekki, meðal annars vegna mótstöðu konu séra Jóns.

Þann 11. apríl 1765 var Egill svo vígður sem trúboði af Ludvig Harboe Sjálandsbiskupi. Fáeinum dögum síðar var hann sendur til Godthaab á Grænlandi sem trúboði og átti einnig að athuga hvort mögulegt væri að stunda þar búskap með íslenskum aðferðum en á þessum tíma voru uppi áform um að senda íslenska bændur til Grænlands. Hann skrifaði skýrslur um þetta og gerði einnig ýmsar athuganir á grænlenskri náttúru. Agli varð vel ágengt við trúboðið en átti þó löngum í erjum við herrnhuta, þýska trúboða sem borist höfðu til Grænlands. Hann varð aðstoðarprófastur á Suður-Grænlandi 1773, en hélt heim á leið vegna heilsubrests árið 1775. Varð hann þá prestur og síðar prófastur í Bogense í Danmörku.

Ritstörf breyta

  • Den Islandske Lov, Jons Bogen : udgiven af Kong Magnus Lagabætir Anno 1280, Kjøbenhavn 1763, 16+414+123 s. — Dönsk þýðing Jónsbókar.
  • Efterretning om Rudera eller Levninger af de gamle Nordmænds og Islænderes Bygninger paa Grønlands Vester-Side, tilligemed et Anhang om deres Undergang sammesteds, Kiøbenhavn 1776, 80 s. — Eitt af því fyrsta sem birtist um norrænar minjar á Grænlandi.
  • TUKSIUTIT Sabbatit Ulloinnut Napertorsaket, allello Kallalingnut Attuartukset : TUKSIAUTILLO Illæjartortut : APERSOUTINGOELLO Koekkorsunnut Illinniegækset, Kiöbenhavnme 1776, 4+116+4 s. — Bænir og sálmar á grænlensku.
  • KATEKISMUS TERSA ILLINNIARKFUTUJSET Gudemiglo, Pekkorseiniglo Innungnut nalegæksennik, pilluarsinnàngorkullugit nunamètillugit, annekluarfinnangorkullugillo Tokkob kingorngagut, Kiöbenhavnme 1777, 16+103 s. — Barnalærdómskver á grænlensku.
  • Beskrivelse over missionerne i Grønlands søndre Distrikt : hvilke han som vice-provst visiterede i aarene 1774-1775, København 1914, 8+116 s. — Louis Bobé gaf út.

Tengt efni breyta

Heimildir breyta

  • „Fyrsti íslenski kristniboðinn. Lesbók Morgunblaðsins, 21. febrúar 1971“.

Tenglar breyta