Doris Day
Doris Day (fædd undir nafninu Doris Mary Kappelhoff; 3. apríl 1922 – 13. maí 2019) var bandarísk leikkona og söngkona. Hún var einnig þekkt sem baráttukona fyrir dýravelferð.
Doris Day | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fædd | Doris Mary Kappelhoff 3. apríl 1922 Cincinnati, Ohio, Bandaríkjunum |
Dáin | 13. maí 2019 (97 ára) Carmel Valley, Kaliforníu, Bandaríkjunum |
Ár virk | 1939–1989 |
Maki | Al Jorden (g. 1941; skilin 1943) George Weidler (g. 1946; skilin 1949) Martin Melcher (g. 1951; skilin 1968) Barry Comden (g. 1976; skilin 1981) |
Börn | Terry Melcher |
Undirskrift | |
Helstu hlutverk | |
Jan Morrow í Pillow Talk Jennifer Nelson í The Glass Bottom Boat Ruth Etting í Love Me or Leave Me |
Day hóf feril sinn sem dansari og sóttist eftir ferli í ballettdansi, en eftir að hún fótbrotnaði neyddist hún til að skipta um starfsgrein og gerðist söngkona í hljómsveitum árið 1939.[1] Hún komst til metorða árið 1945 með söng sínum í tveimur lögum sem komust efst á vinsældalista: „Sentimental Journey“ og „My Dreams Are Getting Better All the Time“ með hljómsveitinni Les Brown & His Band of Renown. Day gekk síðan úr hljómsveitinni, hóf feril sem einsöngvari og hljóðritaði rúmlega 650 söngva frá 1947 til 1967.
Day hóf feril í kvikmyndum á seinni hluta klassíska tímans í Hollywood með kvikmyndinni Romance on the High Seas árið 1948 og átti eftir að vinna sem leikkona í Hollywood næstu 20 árin. Hún lék aðalhlutverk í margs konar kvikmyndum, meðal annars í söngleikjum, gamanleikjum og í dramamyndum. Hún lék titilhlutverkið í kvikmyndinni Calamity Jane (1953) og lék á móti James Stewart í kvikmyndinni The Man Who Knew Too Much (1956) eftir Alfred Hitchcock. Þekktustu hlutverk hennar voru í kvikmyndum þar sem hún lék á móti Rock Hudson, og má þar helst nefna myndina Pillow Talk frá árinu 1959. Day var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta leikkonan fyrir leik sinn í myndinni. Hún vann einnig með James Garner í myndunum Move Over, Darling (1963) og The Thrill of It All (1963) og lék á ferli sínum á móti Clark Gable, Cary Grant, James Cagney, David Niven, Jack Lemmon, Frank Sinatra, Richard Widmark, Kirk Douglas, Lauren Bacall og Rod Taylor í ýmsum kvikmyndum. Eftir að Day hætti að birtast í kvikmyndum árið 1968 varð hún aðalleikonan í eigin sjónvarpsþáttum, The Doris Day Show, sem sýndir voru til ársins 1973.
Day var ein af frægustu kvikmyndastjörnum heims á sjöunda áratuginum og var árið 2012 ein af átta skemmtikröftum sem höfðu komist fjórum sinnum efst á vinsældalista í bandarískum kvikmyndahúsum.[2][3] Árið 2011 gaf Day út 29. hljómplötu sína, My Heart, og komst á metsölulista í Bretlandi. Hún hlaut Grammy-verðlaun fyrir ævistarf sitt og Legend-verðlaunin frá bandaríska Söngvarasambandinu. Árið 1989 hlaut hún einnig Cecil B. DeMilne-verðlaunin fyrir ævistörf sín í kvikmyndum. Árið 2004 var hún sæmd Frelsisorðu Bandaríkjaforseta og hlaut síðan verðlaun fyrir ævistörf sín frá Gagnrýnendasambandi Los Angeles árið 2011.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Ríkasta kona í Hollywood“. Alþýðublaðið. 27. maí 1961. Sótt 15. maí 2019.
- ↑ „Doris Day“. Biography in Context. Detroit, MI: Gale. 2013. Sótt 15. janúar 2016.
- ↑ Hotchner, A.E. (1976). Doris Day: Her Own Story. New York: William Morrow and Company, Inc. ISBN 978-0-688-02968-5.