Alfred Hitchcock

Breskur kvikmyndaleikstjóri (1899-1980)

Alfred Joseph Hitchcock (fæddur í London 13. ágúst 1899, lést 29. apríl 1980 í Bandaríkjunum) var þekktur kvikmyndaleikstjóri.

Alfred Hitchcock

Ferill Hitchcocks Breyta

Hitchcock fékk snemma áhuga á kvikmyndagerð og þegar hann var 16 ára var hann farinn að lesa sér mikið til um kvikmyndir og kvikmyndagerð. Árið 1920 fékk Hitchcock vinnu hjá Lasky kvikmyndagerðinni í London sem titlahönnuður og var hann þar í tvö ár. Þá fékk hann tækifæri til að leikstýra myndinni Always tell your wife eftir að leikstjóri myndarinnar varð frá að hverfa vegna veikinda. Hitchcock kláraði myndina og voru yfirmenn hans svo ánægðir að honum var falið að leikstýra myndinni Number 13, einungis 22 ára gömlum. Sú mynd var hinsvegar aldrei kláruð. Fyrstu mynd sína í fullri lengd gerði hann svo árið 1925 og var það myndin The Pleasure Garden. 2. desember 1926 giftist Hitch Ölmu Reville, konunni sem átti eftir að vera hans stoð og stytta gegnum langan feril hans.

Fyrsta mynd Hitchcocks sem náði verulegum vinsældum var myndin The Lodger frá 1927. Hann náði heimsfrægð árið 1935 þegar hann gerði myndina 39 Steps.

Árið 1939 flutti Alfred Hitchcock með fjölskyldu sína til Bandaríkjanna þar sem hann var staðráðinn í að hefja alþjóðlegan kvikmyndaferil sinn. Þar átti hann eftir að vera það sem eftir var af ferli sínum, eða allt til dauðadags. Hann fékk sjö ára samning hjá David O. Selznick og fyrsta mynd hans vestanhafs var Rebecca, byggð á skáldsögu Daphne Du Maurier. Í Bandaríkjunum gerði hann allar sínar frægustu myndir og má þar nefna Psycho, Glugginn á bakhliðinni (Rear Window), The Birds og Vertigo. Hann naut einnig mikilla vinsælda fyrir sjónvarpsþættina Alfred Hitchcock presents sem voru framleiddir frá 1955 til 1962.

Síðustu mynd sinni leikstýrði hann árið 1976 en það var myndin Fjölskyldugáta (Family Plot). Hann lést þann 29. apríl 1980, þá áttræður. Hann hafði á ferli sínum leikstýrt yfir 60 kvikmyndum.

Myndir Breyta

Tengill Breyta