Samræður um trúarbrögðin
(Endurbeint frá Dialogues concerning Natural Religion)
Samræður um trúarbrögðin (e. Dialogues concerning Natural Religion) er rit um heimspeki eftir skoska heimspekinginn David Hume. Í ritinu ræðast við þrjár skáldaðar persónur, Demea, Fílon og Kleanþes, um eðli trúarbragðanna og tilvist guðs. Þeir eru allir sammála um að guð sé til en greinir á um eðli hans og eiginleika og hvort menn geti nokkurn tímann öðlast þekkingu á guði. Meðal þess sem þeir ræða um er bölsvandinn og hönnunarrökin fyrir tilvist guðs.
Hume hóf að rita Samræður um trúarbrögðin árið 1750 en lauk ekki við þær fyrr en 1776 skömmu áður en hann lést. Ritið byggir að hluta til á riti Ciceros De Natura Deorum (Um eðli guðanna). Samræður um trúarbrögðin komu út að Hume látnum árið 1779.
Persónur
breyta- Pamfílos er ungur maður sem er viðstaddur þegar samræðurnar áttu að eiga sér stað. Hann endursegir vini sínum Hermipposi samræðurnar í bréfi og er sögumaður. Undir lok ritsins kemur fram að hann telji að Kleanþes hafi fært fram bestu rökin. Það er þó óljóst hvort hann er fulltrúi Humes eða ekki.
- Kleanþes er rökhyggjumaður sem heldur fram markhyggjurökum fyrir tilvist guðs.
- Fílon er af mörgum talinn vera fulltrúi Humes sjálfs. Hann gagnrýnir kenningar Kleanþesar um markhyggju og manngervingu guðs. Fílon hafnar ekki tilvist guðs en heldur því fram að mannleg rökhugsun sé ófær um að draga ályktanir um guðdóminn.
- Demea heldur fram heimsfræðilegum rökum fyrir tilvist guðs en telur að guðstrú verði að byggja á trausti en ekki á rökum.