Díana prinsessa

(Endurbeint frá Díana prinsessa af Wales)

Lafði Diana Spencer (fædd Diana Frances Spencer) betur þekkt sem Díana prinsessa (1. júlí 1961 - 31. ágúst 1997) var fyrsta eiginkona Karls Bretaprins og móðir prinsanna Vilhjálms og Harry.

Díana prinsessa.

Hún var yngsta dóttir Edward John Spencers sem seinna hlaut nafnbótina John Spencer, 8. jarl af Spencer og fyrri eiginkonu hans Frances Spencer, greifynju af Althrop. Þau skildu þegar Díana var 6 ára og hafði skilnaðurinn mikil áhrif á hana. Hugur Díönu hneigðist ekki til langskólanáms en hún var hæfileikarík í dansi, tónlist og íþróttum. Árið 1978 fluttist hún til London þar sem hún deildi íbúð með nokkrum öðrum og vann ýmis störf t.d. á leikskóla.

Díana og Karl trúlofuðu sig árið 1981 eftir stutt tilhugalíf og þann 29. júlí sama ár fór brúðkaup þeirra fór fram og í kjölfarið hlaut hún titilinn Prinsessa af Wales. Hjónin eignuðust tvo syni, prinsana Vilhjálm (1982) og Harry (1984). Hjónaband Karls og Díönu var stormasamt og litaðist af erfiðleikum og framhjáhaldi. Þau héldu hvort í sína áttina árið 1992 en hjónabandið endaði formlega með lögskilnaði árið 1996.

Díana tók að sér ýmsar konunglegar skyldur sem prinsessa af Wales og var fulltrúi Elísabetar drottningar í störfum víðs vegar um ríki Breska samveldisins og vakti óhefðbundin nálgun hennar á góðgerðarstörf athygli. Störf hennar beindust upphaflega einkum að börnum og unglingum en hún varð síðar þekkt fyrir stuðning sinn við alnæmissjúka og baráttu gegn jarðsprengjum.

Í upphafi frægðar sinnar var feimni Díönu umtöluð en útgeislun hennar og vinsemd átti sinn þátt í að Díana varð fljótt afar vinsæl meðal almennings. Díana var löngum eitt helsta viðfangsefni blaðaljósmyndara og var jafnframt talin leiðandi í tísku á níunda og tíunda áratugnum. Díana lést í bílslysi í París þann 31. ágúst 1997.

Heimild

breyta
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Diana, Princess of Wales“ á ensku útgáfu Wikipedia. Skoðað 5. desember 2020.