Christoffer Valkendorf

Christoffer Henningsen Valkendorf eða Walkendorff (1. september 152517. janúar 1601) var danskur aðalsmaður og embættismaður á 16. öld og einn valdamesti maður Danmerkur á sinni tíð. Hann var meðal annars höfuðsmaður yfir Íslandi skamma hríð.

Christoffer Valkendorf. Veggmynd í Ráðhúsinu í Kaupmannahöfn.

Embættismaður á erfiðum stöðum

breyta

Hann var fæddur í Glorup á Fjóni, sonur Henning Valkendorf og konu hans Sidsel Friis. Faðir hans var af þýskri aðalsætt sem hafði flust til Danmerkur. Ekkert er vitað um uppvöxt hans en hann gekk snemma í þjónustu konungs og var orðinn einn af riturum hans árið 1551. Árið 1556 fékk hann að léni Bergenhus, Vardøhus og fleiri lén í Noregi og var í Björgvin næstu árin. Þar tókst hann á við yfirgangssama Hansakaupmenn og hafði betur. Með því ávann hann sér hylli Friðriks konungs 2., sem árið 1561 setti hann sem tilsjónarmann með bróður sínum, Magnúsi hertoga, sem stýrði biskupsdæminu Øsel (nú Saaremaa í Eistlandi) og fleiri lendum í Eystrasaltslöndum.

Hann var kallaður heim 1567 og fyrst sendur til ýmissa starfa í Noregi og Þýskalandi en árið 1569 var hann sendur til Íslands og gerður að höfuðsmanni. Það stóð þó ekki lengi og sumarið 1571 fékk Walkendorff Gotland að léni. Það tilheyrði þá Danmörku en var illa farið eftir langvarandi átök Dana og Svía. Honum þótti takast vel til að bæta ástandið þar.

Í æðstu stjórn ríkisins

breyta

Í ársbyrjun 1574 fékk Valkendorf umbun fyrir að hafa um nær tuttugu ára skeið sinnt störfum á ýmsum útkjálkum ríkisins og var útnefndur rentumeistari eða ríkisféhirðir og var raunar ekki öfundsverður af því embætti þar sem ríkiskassinn var galtómur. Eftir lát Peder Oxe í október 1575 mátti heita að hann stýrði fjármálum ríkisins.

Valkendorf sat í danska ríkisráðinu frá 1577, auk þess sem málefni Kaupmannahafnar heyrðu undir hann frá 1579, og í raun má segja að hann hafi að nokkru leyti verið eins konar forsætisráðherra, ásamt Niels Kaas kanslara. Hann efldi mjög varnir Kaupmannahafnar og lét reisa þar ýmsar byggingar, bætti löggæslu og stóð fyrir endurbótum á vatnsveitu og skólpræsum borgarinnar. Hann hafði mikinn áhuga á menntun, studdi fátæka stúdenta til náms og lét reisa stúdentagarðinn sem við hann er enn kenndur, Valkendorfs Kollegium. Sumar af umbótum sínum framkvæmdi hann á eigin kostnað en hann var vellauðugur og átti ekki erfingja.

Fall og endurreisn

breyta

Friðrik 2. dó 1588 og Valkendorf var einn ríkisstjóranna sem stýrðu Danaveldi þar til Kristján 4. varð sjálfráða. Hann lenti þó fljótt í deilum við samstarfsmenn sína þar og átti í ýmsum erfiðum málum, einkum vegna þess að hann lét taka færeyska sæfarann og þjóðhetjuna Magnús Heinason af lífi, og varð að víkja úr ríkisstjórastólnum 1590. Hann var fremur lítið áberandi næstu ár en tókst að koma sér vel og þegar Kristján 4. tók við stjórnartaumunum 1596 útnefndi hann Valkendorf ríkishofmeistara, en það embætti hafði verið autt allt frá því að Peder Oxe lést tuttugu árum áður, þótt Valkendorf hefði í raun löngum gegnt hluta embættisverkanna. Hann hélt því embætti allt þar til hann dó í ársbyrjun 1601. Hann var ókvæntur alla tíð.

Valkendorf var dugmikill embættismaður, hæfur og umbótasinnaður en oft tillitslaus og ágengur og olli það oft árekstrum við aðra embættismenn og jafnvel konunginn sjálfan. Hann þótti þó varfærnari síðustu árin, eftir að hann komst aftur í valdastöðu.

Heimildir

breyta
  • „Dansk biografisk Lexikon. 18. bindi“.


Fyrirrennari:
Henrik Krag
Hirðstjóri
(15691570)
Eftirmaður:
Johann Bockholt