Bláklukkuætt

(Endurbeint frá Campanulaceae)

Bláklukkuætt (Latína: Campanulaceae) er ætt blómplantna. Bláklukkuætt inniheldur næstum 2400 tegundir í 84 ættkvíslum sem flestar eru jurtkenndar plöntur en sumar eru runnar og örfáar eru smávaxin tré. Sumar tegundir af bláklukkuætt hafa mjólkursafa í vefjum sínum. Meðal ættkvísla af bláklukkuætt eru klukkur (Campanula), og algengar garðplöntur eins og blöðrublóm (Platycodon) og Lobelia.

Bláklukkuætt
Bláklukka (Campanula rotundifolia) er algeng á Íslandi, sérstaklega á Austurlandi.
Bláklukka (Campanula rotundifolia) er algeng á Íslandi, sérstaklega á Austurlandi.
Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ættbálkur: Bláklukkubálkur (Campanulales)
Ætt: Bláklukkuætt (Campanulaceae)
Undirættir

Campanuloideae
Lobelioideae
Cyphioideae

Plöntur af bláklukkuætt vaxa um allan heim og finnast á öllum heimsálfum nema Suðurskautslandinu. Tegundir af bláklukkuætt finnast í ríkum mæli á afskekktum eyjum og eyjaklösum, til dæmis eru yfir 100 tegundir af bláklukkuætt einlendar á Hawaii. Meginlandssvæði með mikla fjölbreytni plantna af bláklukkuætt eru Suður-Afríka, Kalifornía og Norður-Andesfjöll.

Búsvæði plantna af bláklukkuætt eru fjölbreytileg og ná allt frá hróstrugustu eyðimörkum að regnskógum. Landfræðilega nær bláklukkuætt allt frá háarktískum svæðumhitabeltinu, auk vatnabúsvæða, sjávarhamra og háfjallabúsvæða.

Tvær tegundir af bláklukkuætt finnast á Íslandi, bláklukka (Campanula rotundifolia) og fjallabláklukka (Campanula uniflora).

Efnafræðilegir eiginleikar

breyta

Plöntur af undirættinni Lobelioideae innihalda alkalóíðann lóbelín. Sú fjölsykra sem tegundir af bláklukkuætt nota sem forðanæringu er inúlín, sama forðanæring og plöntur af körfublómaætt.