Byggðasafnið Hvoll

Byggðasafnið Hvoll við Karlsrauðatorg á Dalvík var opnað 12. desember 1987. Safnið er þrískipt; byggðasafn, náttúrgripir og persónusaga. Munir safnsins eru flestir frá Dalvík, Svarfaðardal og Árskógsströnd. Þar eru meðal annars áhöld og innanstokksmunir frá fyrri tíð sem vitna um þróun verkmenningar í sveitarfélaginu og sögu byggðarinnar. Einnig eru þar skrautmunir af ýmsu tagi gerðir af hagleiksfólki af svæðinu. Eftirmynd af Upsakristi, hinni fornu róðu úr Upsakirkju, er þar til sýnis.

Byggðasafnið að Hvoli á Dalvík.

Í safninu er fjöldi uppstoppaðra íslenskra fugla og dýr úr undirdjúpum sjávar. Einnig eru þar spendýr t.d. ísbjörn. Auk þess er grasasafn, skeljasafn, eggja- og steinasafn. Stórt kort af Friðlandi Svarfdæla sýnir hvaða fuglar verpa þar eða hafa viðkomu á svæðinu.

Hluti safnsins er tileinkaður minningu þekktra einstaklinga úr byggðinni — Jóhanns Svarfdælings, Kristjáns Eldjárns forseta Íslands, bræðranna Jóns, Kristjáns og Hannesar Vigfússona frá Litla-Árskógi auk sr. Friðriks Friðrikssonar æskulýðsleiðtoga.

Safnstjóri er Björk Hólm.