Brigham Young (fæddist 1. júní 1801 í Vermont í Bandaríkjunum, dó 29. ágúst 1877 í Salt Lake City í Utah) var annar spámaður og leiðtogi Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu, sem þekktari eru sem mormónar. Young stofnaði borgina Salt Lake City og fjölda annarra bæja í Utah-fylki og öðrum fylkjum þar í kring. Hann hefur oft verið nefndur "hinn ameríski Móses" eða "mormóna Móses" vegna hlutverks síns í landnámi mormóna á svæði í Mexíkó sem seinna varð bandarískt og síðar fylkið Utah.

Ljósmynd af Brigham Young, tekinn um 1866

Young fæddist í fátækri bóndafjölskyldu í Vermont-fylki og vann sem ungur maður sem smiður. Hann varð meþódisti 1824 en snérist til mormónatrúar 1830 þegar hann hafði lesið hina nýútkomnu Mormónsbók. Hann var skírður mormóni 1832 og hélt þá til Kanada sem trúboði. Þegar fyrsta kona hans lést 1834 settist hann að í mormónanýlendunni í Kirtland í Ohio.

Young var heittrúaður og virkur í hinni nýju trú. Hann var gerður að postula og varð einn af quorum, Tólfpostulasveitinni (sem stjórna kirkjunni) 1835. Hann fór sem trúboði til Englands á árunum 1840 til 1841 og í kjölfar þess flutti fjölmennur hópur sem hafði kynnst trúnni í gegnum Young til Bandaríkjanna.

Það svæði í norðurhluta Mexíkó sem Bandaríkin náðu undir sig 1848. Það má þekkja Utah-fylki á vatninu Great Salt Lake. Gadsden-kaupin 1853 eru sýnd með gulum lit

Eftir að Joseph Smith, fyrsti spámaður og stofnandi kirkjunnar, hafði verið myrtur 1844 tók Young við forystu safnaðarins. Mormónar urðu fyrir miklum ofsóknum á þessum tíma og það varð til þess að þeir komust a þeirri niðurstöðu að þeim væri ólíft í austurhluta Bandaríkjanna. Brigham Young fékk þá vitrun um að fyrirheitna landið væri að finna inn í því svæði sem þá var í norðurhluta Mexíkó. Eftir mikla erfiðleikaferð komu fyrstu mormónalandnemarnir á áfangastað í Salt Lake dalnum 24. júlí 1847 og höfðu þá verið á ferð frá apríl 1846.

Appelsíngula línan sýnir það svæði sem mormónar vildu gera að fylkinu Deseret, ljósbleiki liturinn sýnir það svæði sem var gert að Yfirráðasvæðinu Utah 1851

Bandaríkin lögðu undir sig norðurhluta Mexíkó 1848 og þar með það svæði þar sem mormónar höfðu sest að. Young óskaði eftir því við bandarísk yfirvöld að það yrði gert að sjálfstæðu fylki sem kallað yrði Deseret. Það var þó ekki úr en hins vegar var stofnað Yfirráðasvæðið Utah (Utah Territory) og Young var gerður svæðisstjóri og hafði hann með því bæði andleg og veraldleg völd á svæðinu. Rúmlega 100 000 mormónar fluttu á svæðið fram að andláti Young 1877, meðal annars nokkur hundruð íslendingar. Hundruð bæjarsamfélög uxu upp, til dæmis Spanish Fork, fyrsta nýlenda íslendinga í Ameríku.

Brigham Young lifði í fjölkvæni, hann var kvæntur 51 konu og átti 56 börn með 16 af þeim.

Heimildir

breyta
  • By the Hand of Mormon: The American Scripture that Launched a New World Religion, Terryl L. Givens, Oxford University Press, 2002. ASIN: B000WD16NA
  • Shipps, Jan (1987-01-01). Mormonism: The Story of a New Religious Tradition. University of Illinois Press. ISBN 0252014170.
  • Williams, Drew (2003-06-03). The Complete Idiot's Guide to Understanding Mormonism. Alpha. ISBN 0028644913.

Ítarefni

breyta