Breiðabólsstaður (Vesturhópi)

Breiðabólstaður er bær og kirkjustaður í Vesturhópi í Vestur-Húnavatnssýslu. Bærinn var stórbýli, höfðingjasetur og menningarsetur fyrr á öldum.

Breiðabólstaðarkirkja í Húnaþingi vestra árið 2007.

Á Breiðabólstað bjó Már Húnröðarson á 11. öld og síðan sonur hans, Hafliði Másson, sem þekktur var fyrir deilur sínar við Þorgils Oddason á Staðarhóli í Saurbæ. Lauk þeim þannig að Þorgils hjó fingur af Hafliða á alþingi og heimtaði Hafliði af honum afar háar bætur. Þaðan er komið máltækið Dýr mundi Hafliði allur.

Þegar Hafliði bjó á Breiðabólstað voru íslensk lög fyrst skráð þar veturinn 1117-1118 og endurskoðuð og endurbætt um leið, einkum kaflinn Vígslóði. Kallaðist handritið Hafliðaskrá. Minnisvarði um þessa lagaritun var reistur á Breiðabólstað 1974 á vegum Lögmannafélags Íslands. Frá dögum Hafliða þótti Breiðabólstaður mikið menningar- og menntasetur. Þar átti að reisa fyrstu steinkirkju á Íslandi um miðja 12. öld og bóndasonur þaðan fór til Noregs að sækja steinlím í kirkjuna, en skipið fórst á heimleið og kirkjan reis aldrei.

Breiðabólstaður var eitt besta brauð norðanlands og var í kaþólskri tíð veitt af erkibiskupinum í Niðarósi. Þar sátu margir merkisprestar. Hafliði Steinsson, sem hafði verið hirðprestur Eiríks prestahatara, varð prestur á Breiðabólstað 1309. Sonur hans, sagnaritarinn Einar Hafliðason, fékk Breiðabólstað 1343 og var prestur þar í 50 ár og jafnframt prófastur í Húnaþingi. Norðmaðurinn Ólafur Rögnvaldsson varð prestur á Breiðabólstað árið 1460. Hann varð síðar biskup á Hólum.

Fljótlega eftir að Jón Arason keypti prentsmiðju til landsins um 1530 og fékk prentara, Jón Matthíasson eða Mattheusson sem kallaður var hinn sænski til að sjá um prentverkið, fékk prentarinn prestsembætti á Breiðabólstað og flutti þangað með prentáhöldin. Ekki er mikið vitað um þær bækur sem prentaðar voru á Breiðabólstað, en tvær óheilar bækur hafa varðveist. Jón sænski giftist íslenskri konu og var Jón sonur þeirra prentari, fyrst á Breiðabólstað og svo á Hólum. Við prestsembættinu tók Guðbrandur Þorláksson 1567 en fjórum árum síðar varð hann biskup á Hólum og flutti þá bæði prentverkið og Jón yngra prentara þangað.

Núverandi kirkja á Breiðabólstað var reist árið 1893 og er friðuð.

Heimildir

breyta
  • „Breiðabólstaður í Vesturhópi. Sunnudagsblað Tímans, 14. apríl 1963“.

Tenglar

breyta