Boris Godúnov

(Endurbeint frá Boris Godunov)

Boris Fjodorovitsj Godúnov (rússneska: Бори́с Фёдорович Годуно́в; um 155113. apríl 1605) var stjórnandi Rússlands í reynd eftir lát Ívans grimma frá 1584 til 1598 og síðan fyrsti Rússakeisari sem ekki var af Rúriksætt frá 1598 til 1605. Við lok valdatíma hans hófust rósturtímarnir í Rússlandi.

Boris Godúnov

Boris Godúnov var af frægri ætt tatara. Hann hóf feril sinn við hirð Ívans grimma og varð opritsjinik eða meðlimur í hinum illræmdu vopnuðu sveitum keisarans árið 1571. 1580 valdi keisarinn systur Godúnovs, Írene, sem kvonfang sonar síns, Fjodors. Vegna slæmrar geðheilsu Fjodors skipaði Ívan á dánarbeðinu ráð ríkisstjóra sem átti að stjórna fyrir son hans. Ráðið var skipað Godúnov, Fjodor Rómanov og Vasilíj Sjúiskíj. Fremstur þeirra var Fjodor Rómanov, en þegar hann lést í ágúst 1584 varð Godúnov hæstráðandi í landinu.

1591 lést yngri sonur Ívans, Dmitríj Ívanóvitsj, við grunsamlegar kringumstæður. Móðir hans, Maríja Nagaja, kenndi Godúnov um en rannsóknarnefnd undir stjórn Vailíjs Sjúiskíjs úrskurðaði að drengurinn (þá tíu ára) hefði fallið fyrir eigin hendi.

Stjórn Godúnovs var fremur friðsæl, ef undan er skilið Sænsk-rússneska stríðið (1590-1595) þar sem hann náði að vinna lönd við Eystrasalt frá Svíum. Hann kom einnig á vistarbandi rússneskra bænda 1587.

Þegar Fjodor keisari lést barnlaus árið 1598 var Godúnov kjörinn keisari af rússneska stéttaþinginu 21. febrúar. Fyrstu árin var hann vinsæll stjórnandi en eftir því sem lengra leið á valdatíma hans varð hann hræddari við samkeppni um völdin frá öðrum bojurum og hóf að ofsækja voldugustu fjölskyldurnar. Einkum varð Rómanovættin fyrir barðinu á þessum ofsóknum. Þetta aflaði honum margra óvina og eftir að hann lést leið ekki á löngu þar til sonur hans og eftirmaður, Fjodor 2., var myrtur.


Fyrirrennari:
Fjodor 1.
Rússakeisari
(1598 – 1605)
Eftirmaður:
Fjodor 2.


  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.