Björg Caritas Þorláksson

fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsnámi

Björg Caritas Þorláksson (fædd 30. janúar 1874 í Vesturhópshólum í Húnaþingi, dó 25. febrúar 1934 í Kaupmannahöfn), var fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsnámi.

Foreldrar Bjargar voru hjónin Margrét Jónsdóttir (1835-1927) húsfreyja og Þorlákur Símon Þorláksson (1849-1908) bóndi og hreppstjóri í Vesturhópshólum. Systkini Bjargar sem upp komust voru Sigurbjörg Þorláksdóttir (1870-1932) kennslukona, Jón Þorláksson (1877-1935) forsætisráðherra og Magnús Þorláksson (1875-1942) bóndi að Blikastöðum í Mosfellssveit.[1]

Björg og systkini hennar fengu heimakennslu en síðar fór Björg í Kvennaskóla Húnvetninga að Ytri-Ey á Skagaströnd og gerðist seinna kennslukona við skólann. Hún hélt til Kaupmannahafnar árið 1897 ásamt Jóni bróður sínum og ílengdist þar. Þar lauk hún kennaraprófi árið 1900 en áformaði í kjölfarið að sækja um skólavist í Lærða skólanum í Reykjavík og ljúka stúdentsprófi. Beiðni hennar var hafnað þar sem konur höfðu eingunis rétt til að taka próf við skólann en ekki setjast þar á skólabekk. Björg lauk því stúdentsprófi í Kaupmannahöfn árið 1901 og ári síðar lauk hún cand.phil prófi frá Kaupmannahafnarháskóla.[1] Hún hélt síðar í doktorsnám í sálfræði í Sorbonne háskóla í París og varð fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsprófi en hún varði doktorsritgerð sína 17. júní 1926. Sama ár hlaut hún riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu. Doktorsverkefni Bjargar fjallaði um lífeðlisfræðilegan grundvöll eðlishvatanna. Hún var afkastamikil fræðikona og eftir hana liggur mikill fjöldi greina um hin ýmsu málefni. Björg birti fjölda þýðinga á ýmsum greinum í tímaritum á borð við Skírni.

Björg giftist sveitunga sínum Sigfúsi Blöndal bókaverði og orðabókarritstjóra árið 1903 og tók þá nafnið Blöndal en eftir að þau skildu árið 1923 tók hún upp nafnið Björg C. Þorláksson. Björg starfaði ötullega með Sigfúsi að gerð íslensk-danskrar orðabókar án þess þó að hennar sé neins staðar getið í því samhengi.

Hún átti við heilsuleysi að stríða en ung greindist hún með berkla og síðar glímdi hún bæði við brjóstakrabbamein og geðsjúkdóma. Hún lést í Kaupmannahöfn sextug að aldri árið 1934.[2]

Björg - Ævisaga Bjargar C. Þorláksson kom út árið 2001. Höfundur hennar er Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og var bókin fyrsta íslenska fræðilega ævisagan sem skrifuð er um konu.

Heimildir

breyta

Rit eftir Björgu C. Þorláksson

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Auður Styrkársdóttir, „Hvers vegna gleymduð þið Björgu?“, Lesbók Morgunblaðsins, 17. nóvember 2001.
  2. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Björg. Ævisaga Bjargar C. Þorláksson, bls. 347-350.