Benjamin S. Bloom
Benjamin S. Bloom (21. febrúar 1913–13. september 1999) var kennslu- og uppeldisfræðingur. Hann fæddist í Lansford, Pennsylvaníu. Hann útskrifaðist árið 1935 frá Ríkisháskólanum í Pennsylvaníu með bachelor- og mastersgráðu í menntafræðum og árið 1942 lauk hann doktorsgráðu frá Chicago-háskóla. Hann starfaði þar sem kennari frá árinu 1944 og var titlaður prófessor við háskólann árið 1970.
Bloom setti fyrst fram flokkunarkerfi fyrir námsmarkmið í bókinni Taxonomy of Educational Objectives. The Classification of Educational Goals. Handbook I: Cognitive Domain árið 1956. Með því kerfi reynir hann að sýna fram á hvernig markmið í kennslu þurfi að ná til allra þeirra sviða sem kennarar vilja leggja áherslu á svo sem rökhugsunar, sköpunarhæfileika, þekkingar, skilnings og viðhorfa. Megintilgangurinn með þessari flokkun er sá að efla skilning á gerð og eðli markmiða og auðvelda kennurum að setja markmið í kennslu.