Batnandi englar

Bók um Lukku Láka frá 1965

Batnandi englar (franska: Les Dalton se rachètent) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 26. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1965, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1963-64.

Kápa belgísku útgáfu bókarinnar.

Söguþráður breyta

Hæstiréttur Bandaríkjanna með dómarann Jónka Jóns í fararbroddi hyggst beita sér fyrir umbótum á refsilöggjöf með því að gefa afbrotamönnum frelsi til reynslu. Lukku Láki er boðaður á fund réttarins í höfuðborginni Vostúni (e. Washington) og honum gert að sleppa verstu afbrotamönnum landsins, hinum illræmdu Daldónum, lausum úr fangelsi til reynslu í einn mánuð. Brjóti Daldónarnir af sér á reynslutímanum verða þeir lokaðir inni um aldur og ævi, en ella verða þeir frjálsir menn. Daldónum er gefinn kostur á að hefja nýtt líf í bænum Skorpugili (e. Tortilla Gulch) undir vökulu auka Lukku Láka, en fljótlega kemur í ljós að þeir eiga erfitt með að öðlast traust bæjarbúa, ekki síst þegar bófar í héraðinu taka upp á því að ræna banka og járnbrautir í nafni Daldóna. Eftir að Lukku Láki hefur hendur í hári hinna seku taka bæjarbúar Daldónana loks í sátt og allt virðist benda til þess að tilraun Jónka Jóns muni heppnast með glæsibrag.

Fróðleiksmolar breyta

  • Batnandi englar er sjötta Lukku Láka bókin þar sem Daldónarnir eru í aðalhlutverki. Í þessari sögu er verkefni Lukku Láka þó snúnara en áður: Daldónum er sleppt lausum úr fangelsi til reynslu og Lukku Láki þarf að spjara sig í barnapíuhlutverki við að gæta þeirra og vernda þá bæði fyrir sjálfum sér og öðrum. Úr verður ein af eftirminnilegri Daldónasögunum með nokkrum óborganlegum snúningum, t.d. tilraun Daldónanna til að hasla sér völl í fjármálageiranum.
  • Hundurinn og gáfnaljósið Rattati kemur mikið við sögu í bókinni. Á síðustu blaðsíðu bókarinnar, þar sem Rattati fær opinberun um það hver Lukku Láki er, ruglar hann Láka saman við teiknimyndahetjuna Jerry Spring sem kollegi og vinur Morris, belgíski teiknarinn Jijé (Joseph Gillain), skapaði og birtist á síðum Svals. Í íslensku útgáfu bókarinnar hefur nafni Jerry Spring verið breytt í Blástakk (f. Blueberry), en Fjölvi hóf að gefa út bækurnar um Blástakk á svipuðum tíma og Batnandi englar kom út.

Íslensk útgáfa breyta

Batnandi englar var gefin út af Fjölva árið 1978 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 13. bókin í íslensku ritröðinni.