Jijé eða Joseph Gillain (13. janúar 191419. júní 1980) var belgískur myndasöguhöfundur. Hann starfaði lengst af hjá Teiknimyndablaðinu Sval og ritaði um tíma sögurnar um titilpersónu þess. Hann hafði öðrum fremur mótandi áhrif á stíl fransk-belgísku myndasögunnar. Ein kunnasta persónan úr penna Jijé var hugdjarfi kúrekinn Jerry Spring.

Æviágrip

breyta

Joseph Gillain fæddist í Gedinne í borginni Namur og nam ungur ýmsar listgreinar, þar á meðal útskurð, gullsmíði og myndlist. Rúmlega tvítugur að aldri skapaði hann sína fyrstu myndasögupersónu, Jojo, fyrir kaþólskt tímarit, Jojo var undir sterkum áhrifum frá Tinna-sögunum, en fljótlega skóp Jijé sinn eigin stíl. Nýjar sögur fylgdu í kjölfarið og árið 1939 var listamaðurinn ráðinn til starfa við myndasögublaðið Sval, þar sem hann átti eftir að verja mestallri starfsævinni.

Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út átti tímaritið ekki lengur kost á fá erlendar myndasögur til birtingar. Því kom í hlut Jijé að teikna velflestar sögur blaðsins, þar á meðal ævintýri Svals og Vals sem Frakkinn Rob-Vel hafði áður haft á sinni könnu. Jijé þróaði áfram persónu Svals og skóp félaga hans Val eftir hvatningu frá Jean Doisy. Meðal viðfangsefna hans á stríðsárunum var að teikna ævintýri um kunnar bandarískar myndasögupersónur á borð við Red Ryder og Superman.

Jijé var alla tíð trúaður kaþólikki og sér þess stað í sumum verka hans, svo sem í sögum hans um Kristófer Kólumbus og ítalska prestinn Don Bosco. Þá samdi hann ævisögu skátaforingjans Roberts Baden-Powell. Seint á fimmta áratugnum fól hann lærisveini sínum André Franquin að taka við sögunum um Sval og Val, en sneri sér sjálfur að gerð nýrra sagna um kúrekann Jerry Spring. Þau ævintýri ruddu brautina fyrir fjölda fransk-belgískra sagna sem gerðust í villta-vestrinu.

Teiknistíll og áhrif

breyta

Jijé er einn fárra evrópskra myndasöguhöfunda sem var jafnvígur á raunsæislegan teiknistíl og skrípó. Hann hóf ferilinn í anda Hergé og hins svokallaða ligne claire-stíls, en skapaði fljótlega sinn eigin stíl sem ýmist var kallaður ligne atome (atóm-stíllinn) eða Marcinelle-skólinn, en höfuðstöðvar Dupius-fyrirtækisins voru í Marcinelle. Nýi stíllinn blandaði saman einkennum úr Ligne Claire og Art Déco-listastefnunni, sem fól í sér miklu meiri áherslu á spennu og hreyfingu í stað raunsærri og kyrrstæðari mynda í sögum eins og um Tinna blaðamann. Jijé safnaði í kringum sig hópi ungra lærisveina, sem tileinkuðu sér þennan stíl. Jijé varð jafnframt brautryðjandi í gerð fransk-belgísku raunsæismyndasögunnar, ekki hvað síst með kúrekaævintýrunum um Jerry Spring. Meðal lærisveina frá þeim hluta ferils hans má nefna Jean Giraud eða Mœbius, höfund sagnanna um Blástakk og Inkal.

Áhrif Jijé birtust ekki aðeins í teiknistíl heldur einnig í efnistökum. Á meðan heimsmynd myndsagna hafði löngum þótt svart/hvít með björtum hetjum og hreinræktuðum illmennum, var persónusköpun hans flóknari. Þannig voru frumbyggjar Ameríku ekki sýndir sem blóðþyrstir villimenn í sögum hans um Jerry Spring. Þá voru hvítar og þeldökkar sögupersónur hans jafningjar í sögum, sem var fjarri því alsiða.