Baltikaferðin
Baltikaferðin var fræg skemmtisigling íslenskra ferðalanga um Miðjarðarhafið sumarið 1966 í tengslum við söngferð Karlakórs Reykjavíkur. Ferðin vakti mikla athygli almennings og var talsvert rifjuð upp, bæði vegna frásagna af óhóflegri áfengisneyslu en ekki síður vegna kostulegrar lýsingar rithöfundarins Þórbergs Þórðarssonar á henni.
Saga
breytaKarlakór Reykjavíkur hugðist fara í mikið tónleikaferðalag haustið 1966. Var ferðin skipulögð í samvinnu við ferðaskrifstofuna Landsýn og ákveðið að taka á leigu sovéskt skemmtiferðaskip, Baltika. Var skipið fyllt af kórfélögum og öðrum ferðalöngum, 430 í allt.
Ferðalagið tók fimm vikur þar sem fyrst var siglt að ströndum Norður-Afríku, inn í botn Miðjarðarhafsins, um Svartahaf allt til Jalta. Margar kunnustu menningarborgir svæðisins voru heimsóttar og slegið upp tónleikum. Á heimleiðinni var meðal annars stoppað í Búlgaríu og Ítalíu áður en komið var aftur til Reykjavíkur þann 31. október.
Ferðin þótti nýstárleg og vakti þegar mikla athygli. Hörð samkeppni var í ferðaiðnaðinum og brugðust hefðbundu ferðaskrifstofunnar illa við þessum óvænta keppinaut. Kepptust þær við að auglýsa að ferðin væri ekki á þeirra vegum og var reynt að gera það tortryggilegt að um sovéskt farþegaskip væri að ræða. Var vissulega minna um lúxus en í fínustu vestrænu skemmtiferðaskipunum, þannig voru káetur flestar 4-6 manna og einungis sovéskar kvikmyndir sýndar um borð.[1]
Snemma í ferðinni tóku að birtast ýkjukenndar frásagnir í íslenskum dagblöðum um drykkjuskapinn um borð í Baltíku, t.a.m. að vínbirgðir skipsins hefði þrotið þegar á öðrum degi. Í frægu viðtali Matthíasar Johannessen við Þórberg Þórðarson, sem var meðal farþega ásamt Margréti konu sinni, dró skáldið upp litríkar myndir af lífinu um borð. Má þar nefna lýsingar af sessum sem kaupglaðir ferðalangar höfðu keypt snemma í ferðinni sem reyndust mettaðar af pöddum og ýldulyktar sem stafaði af kæstum hákarli sem karlakórsfélagar höfðu í farteskinu. Tiltók Þórbergur jafnframt að lítið pláss hefði verið fyrir ástarfundi farþega nema þá helst í skúmaskotum og björgunarbátum. Vöktu lýsingarnar athygli og kátínu.
Heimildir og tilvísanir
breyta- Sigurveig Jónsdóttir & Helga Guðrún Johnson (2014). Það er kominn gestur: saga ferðaþjónustu á Íslandi. Samtök ferðaþjónustunnar. ISBN 978-9935-10-057-3.