Balthasar Bekker (f. 20. mars 1634, d. 11. júní 1698), var hollenskur heimspekingur og guðfræðingur sem gagnrýndi hjátrú í skrifum sínum. Skrif hans áttu þátt að því að ofsóknum á hendur meintum nornum var hætt um þetta leyti.

Balthasar Bekker

Balthasar fæddist í Metslawier (nú Dongeradeel) og var sonur þýsks prests frá Bielefeld. Balthasar stundaði nám í Groningen, þar sem Jacob Alting kenndi honum, og Franeker. Balthasar varð rektor latínuskóla árið 1657 og var skipaður prestur í Oosterlittens (nú Littenseradiel), þar hóf hann þau nýmæli að predika á sunnudagseftirmiðdögum.

Balthasar las Descartes af miklum áhuga og skrifaði bækur undir áhrifum hans þar sem hann m.a. lofaði (aukið) skoðanafrelsi. Í bók hans De Philosophia Cartesiana færir hann rök fyrir því að guðfræði og heimspeki séu aðskilin fræði og að ekki sé hægt að útskýra gang náttúrunnar út frá helgiritum frekar en hægt sé að draga ályktanir um helgirit með því að skoða náttúruna. Árið 1683 ferðaðist Balthasar á tveimur mánuðum til London, Cambridge og Oxford á Englandi og einni til Parísar í Frakklandi og Leuven.

Þekktasta rit Balthasars er Die Betooverde Wereld (1691), sem kom út á ensku undir heitinu The World Bewitched (1695), sem mætti útleggja á íslensku sem Heimurinn í álögum. Í bókinni réðist hann að þeirri hjátrú að ætla meintum nornum yfirnáttúrulega krafta, s.s. göldrum og að illir andar eða djöfullinn gæti tekið sér bólstað í hugum fólks. Það sem meira er þá dró hann í efa tilvist djöfulsins. Bókin hafði mikil áhrif og er talin vera undanfari þeirra verka sem einkenndu Upplýsinguna. Balthasar var sakaður um guðlast og réttað var yfir honum fyrir guðleysi. Bókin var sums staðar bönnuð en þó ekki í Amsterdam. Balthasar dó í Amsterdam 64 ára að aldri.

Tengill

breyta