Búddistafélag Íslands

Búddistafélag Íslands er skráð trúfélag á Íslandi, forstöðumaður þess heitir Phramahaprasit Boonkam. Talið er að flestir búddistar á Íslandi séu ættaðir frá Taílandi og fylgjendur theravada-greinarinnar. Búddistafélag Íslands var stofnað árið 1995. Það starfrækir eina búddamusterið á Íslandi, á Vighólastíg 21 í Kópavogi, og þar hafa munkar einnig aðsetur.

Fjöldi skráðra félaga eftir árum breyta

  • 2022: 1102
  • 2018: 1060
  • 2016: 1039
  • 2014: 964
  • 2012: 949
  • 2010: 880
  • 2008: 759
  • 2006: 632
  • 2004: 519
  • 2002: 445
  • 2000: 418
  • 1998: 318

Búddismi breyta

Búddismi er trúarbrögð og heimspekikenningar sem eru byggð á kenningum Siddhārtha Gátamasanskrít, á palí heitir hann Siddhattha Gotama), sem lifði fyrir 2500 árum. Siddharta Gátama hlaut síðar tignarheitið Búdda, sem þýðir „hinn upplýsti“. Búddisminn náði mikilli útbreiðslu á Indlandi og þaðan til Mið-Asíu, Srí Lanka og Suðaustur-Asíu og einnig til Austur-Asíu, Kína, Mongólíu, Kóreu og Japan. Á síðari áratugum hefur búddismi fengið talsvert fylgi meðal Vesturlandabúa, meðal annars á Íslandi.

 
Búddastytta frá 1. öld.

Óvíst er hversu marga má telja sem búddista í heiminum, í mörgum þeirra landa þar sem búddismi hefur mikil áhrif, til dæmis Kína og Japan, telur fólk sig oft til margra trúfélaga samtímis. En sennilega má álykta að fjöldi búddista sé á bilinu 200 til 500 milljónir. Oft er sagt að um 380 milljónir fylgi kenningum Búdda og gerir það búddisma að fjórðu stærstu trúarbrögðum heimsins.[1] Búddistar á Austurlöndum hafa ekki notað þetta nafn heldur kallað sig fylgjendur dhamma/dharma. Þeir tala oft um kjarna trúarinnar sem gimsteinana þrjá: Búdda, dhamma/dharma og sangha, það er læriföðurinn, kenninguna og söfnuðinn.

Til eru mjög mismunandi stefnur innan búddismans sem eru mótaðar af ýmsum siðum og venjum. Helstu greinar búddismans eru theravada (kenning öldunganna) og mahāyāna (stóri vagninn). Stundum er vajrayāna-greinin talin sem sjálfstæð þriðja grein en oftast er hún talin undirgrein mahayana.

Theravada breyta

Theravada („kenning öldunganna“) er í meginatriðum íhaldssöm grein búddismans og almennt talin standa næst fornum búddisma.[2] Theravada byggir trúarskilning sinn og framkvæmd einungis á textasafni á indverska tungumálinu palí sem nefnt er Tripitaka. Þetta eru elstu textar búddismans og viðurkenndir af öllum greinum hans. Theravada-greinin er íhaldssamasta grein trúarinnar og segist í alla staði boða upphaflegar og ómengaðar kenningar Gátama Búdda. Í hefð theravada er Búdda upplýstur kennari og leiðsögumaður sem vísar veginn til nirvana en ekki guðleg vera. Mikil virðing er borin fyrir munkum og einungis þeir geta náð uppljómun. Trúarleg fyrirmynd er svo nefnd arhat, það er sá sem hefur öðlast fullkomna innsýn, náð uppljómun og því losnað úr endurfæðingarkeðjunni og gengið inn í nirvana. Theravada-greinin er megintrú á Sri Lanka, í Taílandi, Búrma, Kambódíu og Laos.

Í theravada-hefð er lítil áhersla lögð á helgiathafnir og þær sem stundaðar eru hafa fylgt trúnni frá upphafi. Það er því lítill munur á helgiathöfnum theravada-búddista hvar sem þeir eru. Öfugt er farið í mahayana þar sem mikil áhersla er á alls konar helgiathafnir og byggja þær að mestu á siðum og venjum hvers svæðis. Mahayana er af þeim sökum oft álitin vera mun alþýðlegri trú þar sem form skipti meira máli en innihald. Þetta veldur því einnig að mahayana-trúin er meira og minna blönduð áhrifum frá alþýðutrú og öðrum trúarhefðum. Þó er í raun munurinn á þessum tveimur höfuðgreinum búddismans hvað þetta varðar ekki svo mikill í huga og framkvæmd alþýðufólks, hjá þeim sem fylgja theravada-búddisma er alls kyns hjátrú og gamlar hefðir mikilvægur þáttur í trú og trúarathöfnum.

Neðanmálsgreinar breyta

  1. „Töluupplýsingar um trúarbrögð frá Adherents“. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. júní 2008. Sótt 2. maí 2017.
  2. Gethin (1998): 1.



   Þessi trúarbragðagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.