Heggstaðanes

(Endurbeint frá Bálkastaðanes)

Heggstaðanes eða Bálkastaðanes kallast nesið milli Hrútafjarðar og Miðfjarðar. Er það framhald af Hrútafjarðarhálsi með áþekku landslagi en láglendara. Þar er mýrlent með melholtum á milli. Hæst er nesið utanvert, milli bæjanna Heggstaða (að austanverðu) og Bálkastaða (að vestanverðu), 184 metrar yfir sjávarmáli. Kallast landið þar Heggstaðaheiði.

Heggstaðanes séð úr lofti.

Sauðfjárrækt er mikil á nesinu; er það grösugt og mikil sauðalönd. Þar fóru fyrstu fjárskipti á Íslandi fram árið 1937 og var fé tekið á ný úr Norður-Þingeyjarsýslu. Þá er þar æðardúntekja - mest á Heggstöðum en einnig á Bálkastöðum og Bessastöðum. Yfir Heggstaðanesháls liggur malarvegur fær öllum fólksbílum en hann var mikið betrumbættur haustið 2006. Var þetta aðalvegurinn á nesinu lengst af þar sem fólk á nesinu hafði lítið að sækja fram í Hrútafjörð. Heggstaðanes tilheyrði Ytri-Torfustaðahreppi fram til ársins 1998 en er síðan hluti af Húnaþingi vestra. Kirkjusókn er að Melstað. Fjórir bæir eru á nesinu: Bessastaðir og Bálkastaðir að vestanverðu og Útibleiksstaðir og Heggstaðir að austanverðu. Útibleiksstaðir eru í eyði.

Frá botni Miðfjarðar út á Heggstaðanestá eru 13,6 kílómetrar beina sjóleið en frá botni Hrútafjarðar eru 34,7 kílómetrar beina sjóleið, þar af 20,3 kílómetrar frá Heggstaðanestá að Reykjarifi í Hrútafirði.

Á Heggstaðanesi er fjölskrúðugt fuglalíf og finnst mörgum skemmtilegt að ganga fyrir nesið frá Heggstöðum til Bálkastaða, eða öfugt. Þar má sjá fugla eins og hrafn, æðarfugl, fýl og kríu, að ógleymdum haferni ásamt ýmsum smáfuglum.