Ari fróði Þorgilsson

Ari fróði Þorgilsson (f. 1067/1068 - d. 9. nóvember 1148) var íslenskur rithöfundur og fræðimaður. Hann er talinn fyrstur manna til þess að rita sögur á norrænu (forníslensku), fornar og nýjar. Þá er hann talinn aðalhöfundur Íslendingabókar og Landnámu, tveggja helstu heimildanna um landnám og byggð Íslands.

Ari var sonur Þorgils Gellissonar á Helgafelli en afi hans var Gellir Þorkelsson goðorðsmaður á sama stað og voru þeir komnir í beinan karllegg frá Þorsteini rauð, syni Auðar djúpúðgu. Þorgils drukknaði í Breiðafirði þegar Ari var barn en Gellir dó í Hróarskeldu á heimleið úr Rómarferð 1073. Þegar Ari var sjö ára var honum því komið í fóstur hjá Halli Þórarinssyni hinum milda (eða spaka) í Haukadal og var hjá honum næstu 14 árin. Ari kallar Hall ágætastan ólærðra manna og segir að hann hafi verið bæði minnugur og ólyginn. Hallur var svo gamall að hann mundi til þess að hafa verið skírður af Þangbrandi þriggja ára gamall, og var það vetri fyrir kristnitöku.

Teitur Ísleifsson, sonur Ísleifs Gissurarsonar biskups, var einnig fóstraður í Haukadal. Hann var mun eldri en Ari, sennilega orðinn harðfullorðinn þegar Ari kom í Haukadal og hafði tekið prestvígslu, og kallar Ari hann fóstra sinn. Hann kom á fót skóla í Haukadal og kenndi sveinum þar til prests. Ari var nemandi hans, hlaut klassíska menntun og lærði latínu en nam einnig ýmsan annan fróðleik.

Að námi loknu var hann vígður af Gissuri biskupi Ísleifssyni og gerðist prestur á Stað á Ölduhrygg, sem nú heitir Staðarstaður, en lítið er vitað um ævi hans eftir það. Hann virðist þó hafa verið talinn til höfðingja og kann að hafa átt goðorð eða hluta af goðorði, enda átti Ari Þorgilsson sterki sonarsonur hans hálft Þórsnesingagoðorð.

Íslendingabók segist Ari hafa skrifað fyrir biskupana Þorlák Runólfsson (1118-1133) og Ketil Þorsteinsson (1122-1145) og er því frumgerð hennar skrifuð einhvern tíma á árabilinu 1122-1132 en síðan segist Ari hafa umskrifað hana eftir yfirlestur biskupanna og Sæmundar fróða, líklega á árunum 1134-1138, og er það sú gerð sem varðveist hefur. Hann mun einnig hafa skrifað eða átt þátt í frumgerð Landnámu; Haukur Erlendsson segir í eftirmála Hauksbókar að Ari og Kolskeggur vitri hafi fyrstir skrifað um landnámið.

Viðurnefnið fróði hlaut Ari vegna orðspors um að hafa gott minni. Í Heimskringlu segir Snorri Sturluson hann hafa verið stórvitran og minnugan.

Tenglar

breyta
  • „Ari Þorgilsson hinn fróði. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 10. árg. 1889“.
  • Rösli, Lukas (10. maí 2021), „From Schedæ Ara Prests Fróða to Íslendingabók – When an Intradiegetic Text Becomes Reality“, From Schedæ Ara Prests Fróða to Íslendingabók – When an Intradiegetic Text Becomes Reality (enska), De Gruyter, bls. 173–214, doi:10.1515/9783110695366-009/html, ISBN 978-3-11-069536-6, sótt 24. júní 2024