Annie Jump Cannon (11. desember 1863 – 13. apríl 1941) var bandarískur stjörnufræðingur sem gegndi lykilhlutverki í nútímaflokkun stjarna með skráningarvinnu sinni. Ásamt Edward C. Pickering er hún viðurkennd sem hönnuður Harvard-flokkunarkerfisins, sem var fyrsta alvarlega tilraunin til þess að flokka stjörnur á grundvelli hitastigs og litrófs. Hún var næstum heyrnarlaus út feril sinn. Cannon var súffragetta og meðlimur í bandarísku kvenréttindahreyfingunni National Women's Party.[1]

Annie Jump Cannon
Annie Jump Cannon árið 1922.
Fædd11. desember 1863
Dáin13. apríl 1941 (77 ára)
Cambridge, Massachusetts, Bandaríkjunum
MenntunWellesley-háskóli
Radcliffe-háskóli
StörfStjörnufræðingur
VerðlaunHenry Draper-verðlaunin (1931)

Einkalíf breyta

Annie Jump Cannon fæddist þann 11. desember árið 1863 í Dover, Delaware. Hún var elst þriggja dætra Wilsons Cannon, sem var skipasmiður og ríkisþingmaður í Delaware, og annarrar konu hans, Mary Jump. Móðir Cannons kenndi henni stjörnumerkin á æskuárum hennar og hvatti dóttur sína til þess að fylgja sínum eigin áhugamálum. Hún stakk upp á því við Annie að sækja nám í stærðfræði, efnafræði og líffræði í Wellesley-háskóla. Cannon og móðir hennar fóru gjarnan upp á háaloft og lærðu að þekkja stjörnurnar með hjálp gamallar kennslubókar í stjörnufræði.[2] Móðir Cannons kenndi henni einnig að skipuleggja heimilisfjármál, en Cannon átti síðar eftir að nota þá kunnáttu til að skipuleggja rannsóknir sínar.[3]

Cannon fór að ráðum móður sinnar og ákvað að fylgja ástræðu sinni fyrir stjörnufræði. Cannon varð fyrir heyrnarskerðingu einhvern tíma í æsku eða snemma á fullorðinsárum sínum. Heimildum kemur ekki saman um hvað olli heyrnarskerðingu hennar, en stundum hefur skarlatssótt verið kennt um hana.[4] Því hefur verið haldið fram að heyrnarleysi Cannons hafi gert henni erfitt fyrir í félagsaðstæðum og því hafi hún sökkt sér í vinnu sína. Cannon giftist aldrei og eignaðist engin börn.

Menntun breyta

Í Wilmington-háskóla (sem nú heitir Wesley-háskóli) þótti Cannon efnilegur nemandi, sérstaklega í stærðfræði. Árið 1880 hóf Cannon nám í Wellesley-háskóla í Massachusetts, einum af bestu kvennaháskólum í Bandaríkjunum. Í Wellesley-háskóla nam hún eðlisfræði og stjörnufræði. Meðal kennara hennar var Sarah Frances Whiting, einn af fáum kvenkyns eðlisfræðingum í Bandaríkjunum á þeim tíma. Cannon útskrifaðist með gráðu í eðlisfræði árið 1884 og var dúx í sínum árgangi. Eftir útskrift sneri hún aftur heim til Delaware og bjó þar næsta áratuginn.

Á næstu árum fór Cannon að leggja fyrir sig ljósmyndun, sem þá var ný listgrein. Árið 1892 ferðaðist hún í gegnum Evrópu og tók myndir með Blair-myndavélinni sinni. Eftir að hún kom heim gaf myndavélaframleiðandinn Blair Company myndir hennar frá Spáni út í bæklingi sem nefndist „Í fótspor Kólumbusar“ og lét dreifa honum sem minjagrip á Kólumbusarsýningunni í Chicago árið 1893.[5]

Stuttu síðar fékk Cannon skarlatssótt sem leiddi til þess að hún varð næstum heyrnarlaus.[4] Heyrnarmissir Cannons gerði henni enn erfiðara fyrir að fóta sig í félagslífinu og því tileinkaði hún líf sitt vinnunni sem aldrei fyrr. Árið 1894 dó móðir Cannons og heimilislífið varð erfiðara. Cannon skrifaði fyrrverandi kennara sínum við Wellesley-háskóla, prófessor Sarah Frances Whiting, og spurði hvort til væri laus staða við háskólann. Whiting réð hana sem aðstoðarkennara í eðlisfræði við skólann. Þetta tækifæri gerði Cannon kleift að taka námskeið á háskólastigi í eðlisfræði og stjörnufræði. Whiting varð Cannon einnig hvatning til þess að læra um litrófsgreiningu.

Til að fá aðgang að betri sjónauka skráði Cannon sig í Radcliffe-háskóla sem „sérstakur nemandi“ og hélt þar áfram stjörnufræðinámi sínu.[6] Radcliffe-háskólinn var til staða nálægt Harvard-háskóla til þess að kennarar við Harvard gætu endurtekið fyrirlestra sína fyrir kvenstúdentana í Radcliffe. Nálægðin við Harvard gerði Cannon kleift að nýta sér stjörnuskoðunarstöð Harvard-háskólans. Árið 1896 réði Edward C. Pickering Cannon sem aðstoðarmann sinn við stjörnuathugunarstöðina. Árið 1907 lauk Cannon námi og fékk meistaragráðuna sína frá Wellesley-háskólanum.[4]

Starfsferill breyta

 
Annie Jump Cannon við skrifborðið sitt í stjörnuskoðunarstöð Harvard-háskóla.[7]

Árið 1896 réði Pickering Cannon ásamt öðrum konum til þess að ljúka við Henry Draper-flokkunarkerfið, með það að markmiði að kortleggja og skilgreina hverja stjörnu á himni að ljósmyndamagni í kringum 9.[8] Í skýringum Cannons vísaði hún til birtustigs sem „Int“ sem var stytting á orðinu „intensity“ eða styrkleiki.[9] Cannon var svo fljótvirk í þessu starfi að Pickering sagði um hana og störf hennar: „Ungfrú Cannon er eina manneskjan í heiminum – karl eða kona – sem getur unnið þetta verk svo fljótt.“[10]

Seinni æviár og dauði breyta

Ferill Annie Jump Cannons í stjörnufræði spannaði meira en 40 ár fram að starfslokum hennar árið 1940.[8] Þrátt fyrir að hafa formlega sest í helgan stein hélt hún áfram að starfa við stjörnufræði í stjörnuathugunarstöðinni allt þar til aðeins nokkrum vikum áður en hún dó.[11] Á ferli sínum hjálpaði Cannon konum að öðlast viðurkenningu og virðingu innan vísindasamfélagsins. Rólegt og vinnusamt viðhorf hennar og hegðun hjálpaði henni að öðlast virðingu í gegnum ævi sína og starfsferill hennar ruddi braut kvenna í stjörnufræði eftir hennar dag.

Cannon dó þann 13. apríl 1941 í Cambridge, Massachusetts, 77 ára gömul.[12] Hún dó á spítalanum eftir að hafa verið veik í meira en mánuð.[11][13] Frá árinu 1934 hefur Bandaríska stjörnufræðifélagið gefið kvenkyns stjörnufræðingum Annie Jump Cannon-verðlaunin árlega fyrir framúrskarandi störf í stjörnufræði.[14]

Tilvísanir breyta

  1. „Brooklyn Museum: Annie Jump Cannon“ (enska). Brooklyn Museum. Sótt 26. febrúar 2019.
  2. „History of Women in Astronomy: Annie Cannon“ (enska). Astronomical Society of the Pacific. Sótt 26. febrúar 2019.
  3. „Girl Star-Gazer Now Specialist“ (enska). Statesville Record and Landmark. 19. nóvember 1928. Sótt 26. febrúar 2019.
  4. 4,0 4,1 4,2 „Annie Cannon“ (enska). She is an Astronomer. 2014. Sótt 26. febrúar 2019.
  5. „Annie Jump Cannon (1863–1941) – Early life“ (enska). Wellesley College. 23. júlí 2006. Sótt 26. febrúar 2019.
  6. John Dvorak. „The Women Who Created Modern Astronomy“. Sky and Telescope. , 2013: 28–33. .
  7. „Annie Jump Cannon (1863–1941), sitting at desk“ (enska). Smithsonian Institution Archives. Sótt 26. febrúar 2019.
  8. 8,0 8,1 „Annie Jump Cannon“ (enska). Encyclopædia Britannica. Sótt 26. febrúar 2019.
  9. „Annie Jump Cannon“ (enska). ancestry.com. 9. mars 2009. Sótt 26. febrúar 2019.
  10. Helen Fitzgerald (18. september 1927). „Counted the Stars in the Heavens“ (enska). The Brooklyn Daily Eagle. Sótt 26. febrúar 2019.
  11. 11,0 11,1 „Noted Woman of Science Dies“ (enska). Daily Capital Journal. 14. apríl. Sótt 26. febrúar 2019.
  12. „Annie Jump Cannon“ (enska). Encyclopedia of World Biography. 2004. Sótt 26. febrúar 2019.
  13. „Annie J. Cannon is Dead; Famed as Astronomer“ (enska). Chicago Tribune. 14. apríl 1941. Sótt 26. febrúar 2019.
  14. „Annie Jump Cannon Award in Astronomy“ (enska). aas.org. Sótt 26. febrúar 2019.