Annar viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna

Annar viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna (e. Second Amendment to the United States Constitution eða Amendment II) er önnur grein réttindaskrár Bandaríkjanna (e. Bill of Rights) og kveður á um réttinn til vopnaeignar (e. the right to keep and bear arms). Þetta ákvæði hefur verið túlkað á mismunandi hátt frá því það tók gildi árið 1791 og er eitt það umdeildasta í bandarísku stjórnarskránni.

Réttindaskrá Bandaríkjanna.

Texti viðaukans

breyta

Viðaukinn er svohljóðandi á ensku í hinum upprunarlega texta stjórnarskrár Bandaríkjanna:

„A well regulated Militia, being necessary to the security of a free State, the right of the people to keep and bear Arms, shall not be infringed.“[1]

Textinn hefur verið þýddur á íslensku á eftirfarandi hátt:

„Með því að landvarnarlið með góðu skipulagi er nauðsynlegt fyrir öryggi frjálsra ríkja skal réttur þjóðarinnar til að eiga og bera vopn óskertur látinn.“[2]

Uppruni

breyta
 
Stytta af borgarahermanni úr frelsisstríði Bandaríkjanna. Annar viðaukinn kveður á um réttinn til vopnaeignar.

Fyrstu tíu viðaukar stjórnarskrár Bandaríkjanna, sem eru sameiginlega kallaðir réttindaskrá Bandaríkjanna, tóku gildi 15. desember 1791.[3] Annar viðaukinn var að mörgu leyti innblásinn af engilsaxneskri lagahefð og átti sér fordæmi í réttindaskrá Bretlands frá árinu 1689 (e. English Bill of Rights of 1689), þar sem rétturinn til vopnaeignar var talinn nauðsynleg hliðstæða þess að einstaklingar hefðu rétt til lífs og sjálfsvarnar, en hið tvennt síðarnefnda var talið til náttúruréttar.[4]

Landsfeður Bandaríkjanna voru mjög tortryggnir í garð miðstýrðs alríkis og vildu takmarka samþjöppun valds hjá alríkinu með því að láta hvert fylki reka sitt eigið landvarnarlið (eða borgaraher, e. militia), í stað þess að alríkið myndi reka þjóðlegan her (e. national army). Það eru þó nokkur ákvæði í bandarísku stjórnarskránni sem kveða á um slíka fylkisrekna borgaraheri og voru þau samin með það í huga að dreifa valdi milli fylkjanna sem yrði þess vegna í höndum almennings í stað alríkisins. Þannig kveður annar viðaukinn á, ásamt því að taka það fram að rétturinn til vopnaeignar skuli látinn óskertur, einnig á um nauðsyn landvarnarliða og ef til vill tengjast þessi tvö efnisatriði. Það varð hins vegar aldrei mikið úr þessum hugmyndum og fljótlega umbreytti alríkið borgaraherjum fylkjanna yfir í Þjóðvarðlið Bandaríkjanna (e. National Guard of the United States).[5] Hinn eiginlegi alríkisher, sem er þekktur nú á dögum sem Bandaríkjaher, varð til síðar.

Stjórnmálalegar deilur

breyta

Eins og sjá má, samanstendur texti annars viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna af tveimur setningum. Hvernig efnisatriði þessara tveggja setninga tengjast hefur verið eitt helsta deilumálið í kringum réttinn til vopnaeignar í innanríkismálum Bandaríkjanna. Íhaldsmenn, eða repúblíkanar, túlka ákvæðið gjarnan sem svo að setningarnar tvær séu ekki tengdar hvor annarri og að ákvæðið kveði þar með á um einstaklingsbundinn rétt til vopnaeignar. Ýmsir hagsmuna- og þrýstihópar, svo sem Landssamband byssueigenda í Bandaríkjunum (NRA), hafa verið fyrirferðamiklir á stjórnmálavettvangi Bandaríkjanna við að tala fyrir þessari túlkun. Hins vegar hafa frjálslyndir (e. liberals), eða demókratar, og þeir sem aðhyllast innleiðingu aukinnar reglugerðar um stjórnun og eftirlit með skotvopnum (e. gun control), átt til með að hafna þessari túlkun og túlka ákvæðið frekar þannig að rétturinn til vopnaeignar sé háður fyrra efnisatriðinu um rekstur borgaraherja.[6]

Úrskurður hæstaréttar Bandaríkjanna

breyta

Í dómsmálinu District of Columbia v. Heller árið 2008 úrskurðaði hæstiréttur Bandaríkjanna að annar viðauki stjórnarskrárinnar kvæði á um einstaklingsbundinn rétt til vopnaeignar og staðfesti þar með málflutning þeirra sem höfðu áður talað fyrir slíku. Þessi úrskurður hefur verið talinn marka þáttaskil (e. landmark decision) í túlkuninni á öðrum viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna.[7]

Tilvísanir

breyta
  1. „Bill of Rights“. National Archives. Sótt 26. október 2014.
  2. „Stjórnarskrá Bandaríkjanna“. Sótt 26. október 2014.
  3. Katz, 2007, bls. 260.
  4. Fyrirmynd greinarinnar var „Second Amendment to the United States Constitution“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. október 2014.
  5. Roskin, Cord, Medeiros & Jones, 2012, bls. 87-88.
  6. Roskin o.fl., 2012, bls. 87-88.
  7. Roskin o.fl., 2012, bls. 87-88.

Heimildir

breyta
  • Katz, Richard S (2007). Political Institutions in the United States. Oxford: Oxford University Press.
  • Roskin, M. G., Cord, R. L., Medeiros, J. A. og Jones, W. S (2012). Political Science: An Introduction (12. útgáfa). Upper Saddle River, NJ: Pearson Prentice Hall.

Tengt efni

breyta